Hljómsveitin Moskvít gefur út sína aðra plötu föstudaginn 11. október. Platan heitir Superior Design og eru öll lögin á plötunni komin út nema eitt, Something Good.
„Platan okkar Superior Design er loksins komin út í heild sinni á streymisveitur. Þessi plata hefur verið lengi í vinnslu hjá okkur og kom öll út í singles á streymisveitum. Platan fjallar um óendanlega leit mannsins að fullkomnun og sú leit endar ekki alltaf vel. Spurningin er hvað fólk meinar með fullkomnun. Er leitin að æskubrunninum þess virði eða er betra að lifa lífinu og kveðja að lífinu loknu? Er grasið grænna hinum megin eða ekki og er það þess virði að fara þangað eða rækta eigin garð? Er nóg að vera maður eða þarf að yfirstíga það og verða eitthvað meira? Er nóg að hafa það gott eða þarf það að vera fullkomið? Lagið Something Good fjallar um mann sem hefur komið sér í sviðsljósið. Hann er sjarmerandi og eftirsóttur. Þær áhættur sem hann tekur geta kostað hann helling. Hann verður fyrir skotárás sem gæti kostað hann lífið eða komið honum í sögubækur. Það eru til margar leiðir til að lifa lífinu og sumir leitast eftir frægð, frama og auði en aðrir leita inn á við, umhverfið í kringum sig og sumir einfaldlega fljóta með,“ segir hljómsveitin í tilkynningu til Dagskrárinnar.