9.5 C
Selfoss

Sýning á verðlaunum Sigfúsar Sigurðssonar á Bókasafni Árborgar

Vinsælast

Þriðjudaginn 1. október opnaði sýning á bókasafni Árborgar með verðlaunagripum Ólympíufarans Sigfúsar Sigurðssonar.

Sigfús keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í London 1948 og var fyrsti Ólympíufari Umf. Selfoss. Þar keppti hann í kúluvarpi þar sem hann komst í úrslit og lenti í 12. sæti. Sigfús varpaði kúlunni 13,66 metra í úrslitakeppninni en 14,49 í undankeppninni. Hann var einn af frumkvöðlum íþróttauppbyggingar á Selfossi og formaður Ungmennafélags Selfoss um árabil og var seinna gerður að heiðursfélaga þess.

Tvö af börnum Sigfúsar, Einar og Margrét, voru viðstödd athöfnina og sögðu þau mikilvægt að varðveita verðlaun föður síns svo þau glatist ekki. Telja þau Selfoss vera góðan stað í þá varðveislu. Upphaflega voru verðlaunin til sýnis í Tíbrá en í tilefni Menningarmánaðarins október var ákveðið að setja sýninguna upp á bókasafninu.

Fjöldi fólks mætti á opnun sýningarinnar. Nokkrir tóku til máls og ræddu um árangur Sigfúsar og þýðingu hans fyrir íþróttasamfélagið á Selfossi, ásamt því að þakka fyrir að fá að varðveita verðlaunin hans. Í lok athafnar var boðið upp á köku og kaffi fyrir alla gesti.

Nýjar fréttir