Meirihluti fjárlaganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fundar í dag með fulltrúum innviðaráðuneytis og fjármálaráðuneytis til að fara yfir stöðu nýrrar brúar yfir Ölfusá. Fundurinn var boðaður í gær.
Mbl.is greinir frá þessu í dag.
Njáll Trausti Friðbertsson, formaður fjárlaganefndar, sagði í samtali við Mbl.is að staða Ölfusárbrúarverkefnisins verði kynnt á fundinum. Hann vissi ekki hvort önnur mál kæmu til umræðu.
Umhverfis- og samgöngunefnd samþykkti í sl. viku ósk um minnisblað frá innviðaráðuneytinu um stöðu Ölfusárbrúarverkefnisins sem og þeirra vegaframkvæmda sem henni tengjast. Einnig er beðið um uppfærða tímalínu framkvæmdarinnar, áfallinn kostnað, uppfærða kostnaðaráætlun og áætlaðan fjármagnskostnað, en síðast þegar til áætlunarinnar spurðist fyrir ári stóð hún í 15,3 milljörðum.
Auk þess óskar nefndin eftir upplýsingum um hvort ástæða sé til að endurskoða hönnunarþátt verkefnisins m.t.t. þess að hagkvæmni þess væri sem best tryggð. Loks vill nefndin fá upplýsingar um hvernig fjármögnun verkefnisins, sem gjaldtaka á að standa undir, falli að lögum um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir og næstu skref.