Selfoss sigraði KFA 3-1 í framlengdum úrslitaleik neðrideildabikarkeppni KSÍ, Fótbolti.net-bikarnum, á Laugardalsvellinum á föstudagskvöld.
Gríðarleg stemning myndaðist á vellinum og Selfyssingar fjölmenntu á leikinn til þess að styðja sína menn.
KFA komust yfir á 54. Mínútu og höfðu öll völd á vellinum fram á u.þ.b. 70. mínútu. Þá vöknuðu Selfyssingar til lífsins og jöfnuðu leikinn skömmu seinna. Eftir jöfnunarmarkið fengu Selfyssingar betri færi til að klára leikinn í venjulegum leiktíma en Danny El-Hage, markvörður KFA, varði vel. Í framlengingu skoruðu Selfyssingar tvö skallamörk en varnarleikur KFA manna í mörkunum var frekar slakur.
Leikurinn endaði því með 3-1 sigri Selfyssinga og fór bikarinn yfir brúna.