2.5 C
Selfoss

Ólgandi sköpun á Eyrarbakka

Vinsælast

Listagyðjan svífur yfir Eyrarbakka í september þar sem 20 listamenn frá ýmsum heimshornum hafa unnið að sköpun sinni síðastliðnar tvær vikur. Afraksturinn má sjá á listahátíðinni Oceanus/Hafsjór – Hafrót sem hefst um helgina og verða sýningar víðsvegar um bæinn.

Velviljinn í þorpinu er ómetanlegur

Ásta Guðmundsdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, flutti á Eyrarbakka fyrir 8 árum, keypti gamalt hús og gerði það upp. Ásta er lærður fatahönnuður og fékk fljótlega þá hugmynd að halda listahátíð í þorpinu. Hún hafði tekið þátt í slíkum hátíðum víðsvegar um heim og langaði að gefa til baka það sem hún hafði fengið að upplifa. Hún segir Eyrarbakka búa yfir einstökum töfrum og fólkið í þorpinu hafi lagt hátíðinni lið. Ýmsir hafi hlaupið undir bagga, lánað húsnæði, útbúið mat og aðstoðað á einn eða annan máta. Slíkur velvilji sé ómetanlegur.

Ljósmynd: Sigrún Þuríður Runólfsdóttir.

Hafrót táknar styrk og tengsl

Ásta segir nafn hátíðarinnar sótt í grísku goðsagnirnar. Oceanus, afkomandi himins og jarðar, sé persónugervingur náttúruafla sem flæða um heiminn og sameini hann. Hafrótið vísi til ölduhreyfinga á hafi og tákni þann styrk og tengsl sem listahátíðin Oceanus/Hafsjór stendur fyrir.

Ljósmynd: Aðsend.

Mikilvægt að víkka sjóndeildarhring samfélagsins

Þátttakendur hátíðarinnar eru 20 alþjóðlegir listamenn frá Slóvakíu, Póllandi, Þýskalandi, Mauritius, Frakklandi, Japan, Suður-Kóreu, Mexíkó, Ítalíu, Kanada og Íslandi. Þeir sækja sér innblástur í umhverfið á staðnum og eiga skapandi samskipti við íbúa á staðnum.

„Markmið hátíðarinnar er að efla menningarstarfsemi og listsköpun á svæðinu og vekja áhuga á menningu og sögu Eyrarbakka, sem hefur ríka menningararfleifð. Auk þess er mikilvægt að víkka sjóndeildarhring samfélagsins með því að bjóða erlendum listamönnum að taka þátt og koma með sína sýn á umhverfi okkar. Þannig verður Eyrarbakki í brennidepli með iðandi listalífi, þar sem íbúar og gestir geta upplifað og jafnvel tekið þátt í hátíðinni,“ segir Ásta.

Listamennirnir koma víða að.
Ljósmynd: Aðsend.

Veitir mikinn innblástur að vinna með krökkunum

Leikskóla- og grunnskólabörn á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa að undanförnu sótt vinnustofur með listafólkinu þar sem sköpunargleðin fær lausan tauminn. Ásta segir það veita mikinn innblástur að vinna með krökkunum. Þau séu svo hugmyndarík og laus við allar hömlur. Þannig styrkist líka tengslin við nærsamfélagið enn frekar.Listafólkið hitti líka ungt fólk á listnámsbraut í FSU meðan þau voru hér og eru í samstarfi við skólann.


Leikskóla- og grunnskólabörn á Eyrarbakka og Stokkseyri hafa að undanförnu sótt vinnustofur með listafólkinu þar sem sköpunargleðin fær lausan tauminn.
Ljósmynd: Aðsend.

Opnunarhátíð er laugardaginn 28. september

Opnunartímar sýningar:

Laugardagur 28. september kl. 14:00-18:00 (sýningaropnun)

Sunnudagur 29. september kl. 13:00-18:00

Laugardagur 5. október kl. 13:00-18:00

Sunnudagur 6. október kl. 13:00-18:00

Listamenn: Auðunn Kvaran, Auður Hildur Hákonardóttir, Ásta Vilhelmína Guðmundsdóttir, Becky Fortsythe, Bragi Hilmarsson, Christine Gísla, Dario Massarotto, Genevieve Bonieux, Hekla Dögg Jónsdóttir, Gio Ju, Hera Fjord, Yuliana Palacios, Jörg Paul Janka, Manou Soobhany, Margrét Norðdahl, Piotr Zamjoski, Soffía Sæmundsdóttir, Tei Kobayashi, Teitur Björgvinsson og Xenia Imrova.

Nánari upplýsingar:

Heimasíða: www.oceanushafsjor.com
Instagram: oceanus_hafsjor
Facebook: Hafsjór – Oceanus

E-mail: asta@astaclothes.is

Nýjar fréttir