11.1 C
Selfoss

Rándýr heimaþjónusta

Vinsælast

Þeir vita hvar „breiðu bökin“ er að finna. Ég hef því miður þurft að nýta mér heimaþjónustu Árborgar sem öryrki og eldri borgari. Sl. þriðjudag fékk ég 58.600 króna reikning á Ísland.is fyrir heimaþjónustu í júlí og ágúst, 5,86 einingar á 10.000 krónur. Þetta hefur ekkert með þrif að gera því fyrir þau er borgað sérstaklega. Því miður hef ég ekki efni á að nýta svo dýra þjónustu eða greiða niður skuldir Árborgar. Verð sennilega að leita annað.

Á þessa leið hljóðaði póstur sem ég setti inn á vefsvæðin Íbúar við ströndina og Íbúar á Stokkseyri í síðustu viku. Um leið tjáði ég stjórnendum heimaþjónustunnar að ég hefði ekki efni á svo dýrri þjónustu. Í framhaldinu var svo hringt í mig frá skrifstofu þjónustunnar og mér var sagt að þetta væri ekki verðskráin sem unnið væri eftir. Gott ef einhverjum var ekki sagt að um kerfisvillu væri að ræða hjá Ísland.is.

Gott og vel en mín spurning er þessi: Hvers vegna sendir Ísland.is mér falsaðan reikning með einingum og upphæð fyrir heimaþjónustu Árborgar? Reikningurinn hefur ekki formlega verið afturkallaður og ég, a.m.k., hef aldrei verið beðinn velvirðingar á því hugarangri sem þessi sending hefur valdið mér. Getur í raun verið að reikningurinn sé siðlaus en réttur? Bíða mín næst dráttarvextir og innheimtukostnaður? Hvað hefði gerst ef ég hefði greitt reikninginn strax? Hefði ég fengið endurgreitt eða hefði upphæðin horfið inn í skuldahýtina?

Sem fyrr segir hef ég einfaldlega ekki efni á svo dýrri heimaþjónustu og ég sagði henni því upp. Stjórnendur heimaþjónustunnar virðast sömuleiðis á þeirri skoðun að þjónustan sé dýr og reikningurinn réttur. A.m.k. hef ég ekki séð hina góðu starfsmenn heimaþjónustunnar síðan ég sagði dýru þjónustunni upp. Bæjarstjórn Árborgar verður svo að eiga það við sig hvort hún brjóti landslög eða ekki. Mig munar hins vegar ekkert um að taka þetta mál næst upp við félagsmálaráðuneytið.

Eiríkur St. Eiríksson

Íbúi á Stokkseyri

Nýjar fréttir