-7.6 C
Selfoss

Uppskeruhátíð Alviðru á degi íslenskrar náttúru

Vinsælast

Í tilefni af degi íslenskrar náttúru þann 16. September nk. fagnar Alviðra deginum með Pálínuboði 15. september frá 14-17. Veisluborð verða dekkuð upp, boðið upp á kaffi og kakó og grænmetissmakk úr grenndargarðinum. Gestir bera að borðinu með sér eitthvað gómsætt og njóta þess að eiga frábæra stund saman undir veislustjórn þeirra Auðar I. Ottesen og Sigurðar Árna Þórðarsonar.

Fjögur ár eru síðan Auður allt árið, undir stjórn Auðar, tók að sér uppbyggingu grenndargarða í Alviðru. Félagsmönnum Landverndar býðst að rækta þar grænmeti í afmörkuðum reitum. Þar rækta nú tíu fjölskyldur saman matjurtir og unnið er árlega að fjölgun ræktunarreitanna. Auður segir frá grænmetis- og kryddræktuninni í grenndargarðinum á Alviðru og býður gestum að smakka nýupptekið grænmeti úr garðinum og Sigurður Árni lumar á góðum ráðum um hvernig nýta má uppskeruna og deilir uppskrift að piparmyntuhlaupi og grænkálssnakki.

Ljósmynd: Auður Ottesen.

Alviðra er í Ölfusi, jörðin er í eign Landverndar. Þar er umhverfis- og fræðslusetur þar sem ungir sem aldnir geta notið stórkostulegrar náttúru í hlíðum Ingólfsfjalls, í Öndverðarnesi og við Sogið. Tryggvi Felixson er formaður stjórnar Alviðru og með honum eru þau Sigurður Árni Þórðarson, Auður I. Ottesen, Kristín Vala Ragnarsdóttir og Íris Grétarsdóttir í stjórn. Undir þeirra stjórn er boðið upp á samverustundir á Alviðru, fræðandi náttúrugöngur, hið árlega Alviðruhlaup og nú á degi íslenskrar náttúru, uppskeruhátíð.

Síðastliðin tvö ár hefur verið unnið að endurbótum á byggingum og umhverfi á Alviðru með aðstoð sjálfboðaliða frá Seeds og frá Birtu starfsendurhæfingu undir verkstjórn Auðar. Í fjósi og hlöðu verða samkomusalir sem nýtast til samfagnaðar, ráðstefnuhalds og fræðslu tengdri náttúru. Mikið hefur áunnist og verða framkvæmdirnar kynntar á samfagnaðinum 15. september og fjósið notað í fyrsta sinn sem veislusalur.

Ljósmynd: Auður Ottesen.

Þau Auður og Sigurður Árni taka vel á móti gestum sem hvattir eru til að leggja lítilræði til Pálínuboðsins og njóta þess að gleðjast saman á fræðslusetrinu á Alviðru.

Nýjar fréttir