Þegar líður að seinni hluta septembermánaðar kemst hreyfing á öflugar nefndir, stjórnir og námskeiðshaldara sem hefja undirbúning að öflugu vetrarstarfi FebSel. Það er stór hópur öflugra einstaklinga sem kemur að vetrarstarfinu ár hvert og verður þeim seint fullþökkuð sú vinna.
Kynningarfundur vetrarstarfsins verður fimmtudaginn 19. september og hefst hann á léttum kaffiveitingum kl. 14.45 í boði stjórnarinnar. Þegar allir hafa notið veitinganna hefjast kynningar á starfi vetrarins eins og það liggur fyrir. Af mörgu er að taka að venju. Má þar nefna myndlist, leiklist, sönglist, tálgun, spil, lestur öndvegisbókmennta, leikhúsferðir, gönguferðir, hreyfifimi af öllum gerðum og styrkleikum og jóga til slökunar.
Þátttaka í starfi félagsins er gefandi, að hitta fólk, rabba saman yfir kaffibolla og njóta.
Skráningarlistar munu liggja frammi í Grænumörkinni eða tilkynnt um annað skráningarform.
Öflug opin hús verða á fimmtudögum og munum við þar vera með fræðandi fyrirlestra, skemmtileg innslög, söng og alls kyns uppákomur. Kynningarfundur viðburðarstjórnar er fimmtudaginn 26. september. Kvenfélagið mun sjá um veitingarnar í vetur eins og þær gerðu sl. vetur og slógu þær í gegn.
Árshátíð FebSel verður 7. nóvember á Hótel Selfossi, með öflugri skemmtidagskrá og léttum snúningum.
Aðventuhátíð verður 4. desember með hátíðlegum söng og nærveru og ljúfum veitingum.
Við vekjum athygli á því að þetta öfluga starf sem við erum með í félagsmiðstöðinni okkar í Grænumörkinni og víðar er fyrir alla eldri borgara í Árborg.
Það er öflugt starf framundan og allir velkomnir. Ef einhver hefur áhuga á að brydda upp á nýjum námskeiðum eða koma með hugmyndir að einhverju skemmtilegu þá endilega hafið samband við stjórnina.
Við hvetjum alla eldri borgara að skrá sig í Félag Eldri Borgara á Selfossi í gegnum netfangið febsel@febsel.is eða koma við á skrifstofu félagsins á opnunartíma.
Takið þátt í öflugu starfi eldri borgara á Selfossi og njótið ykkar í öflugum félagsskap.
Magnús J. Magnússon, formaður Félags eldri borgara á Selfossi