Hvergerðingurinn Anna Guðrún Halldórsdóttir setti fjögur heimsmet á Masters World Weightlifting Championships í Rovaniemi í Finnlandi sl. helgi. Mótið er ætlað fólki 35 ára og eldra og var Anna Guðrún í flokki 55-59 ára.
Kemur heim með þrjú heimsmet
Stefnan var sett á heimsmet í snörun (snatch) en til þess þurfti hún að snara 61 kg. Hennar besti árangur á móti áður var Evrópumet upp á 58 kg, sett í Haugesund í Noregi í júní sl. Hún byrjaði á 56 kg, næst setti hún Evrópumet með því að lyfta 59 kg og í síðustu lyftunni snaraði hún 61 kg sem var þar með Evrópu- og heimsmet.
Stefnan var einnig sett á heimsmet í jafnhöttun (clean & jerk) en til þess þurfti hún að lyfta 79 kg. Hennar besti árangur á móti áður var Evrópu- og heimsmet upp á 78 kg, sett einnig í Haugesund í júní sl. Hún byrjaði á 76 kg, lyfta nr. 2 var svo 79 kg sem fór upp og þar með bætti hún sín eigin Evrópu- og heimsmet. Þegar ein tilraun var eftir ákvað hún að reyna að bæta metið um 2 kg. 81 kg fór upp en því miður fjaðraði hægri olnbogi aðeins svo lyftan var dæmd ógild. Eftir útreikninga situr hún eftir með fjögur heimsmet þar sem samanlagður árangur úr annarri lyftu í báðum hlutum er met. Þriðja lyftan í snörun og síðari gilda lyftan úr jafnhöttun (samanlagður árangur) er einnig heimsmet. Hún kemur því heim með þrjú heimsmet, en setti fjögur á mótinu.
Elsti keppandinn 91 árs
Keppendum er skipt í flokka eftir aldri og kyni. Hver hópur spannar fimm ár en Anna Guðrún keppir í flokki W55 sem eru konur á aldrinum 55-59 ára. Elsti flokkur karla er fyrir eldri en 85 ára (M85) en í honum var elsti keppandi 91 árs, Rudolf fæddur 1933. Elsta konan keppti í flokki eldri en 80 ára (W80), hún var finnsk, fædd 1944 og heitir Terttu. Innan hvers flokks er keppendum raðað í þyngdarflokka og verðlaun veitt fyrir bestu lyftur í hverjum þyngdarflokki, innan hvers aldursflokks.
Heildarfjöldi kvenna í W55 voru 40 en í hennar þyngdarflokki voru þær þrjár. Upphaflega voru skráðar fjórar en ein færði sig upp um flokk til að eiga möguleika á gulli. Sú áttaði sig á því að Anna Guðrún myndi að öllum líkindum vinna sinn flokk, sem hún og gerði.
Himinlifandi yfir heimsmeistaratitlinum
Anna Guðrún undirbjó sig vel fyrir mótið og reyndi að njóta sem mest og hafa gaman. „Ég var búin að æfa vel frá Evrópumótinu og vissi að mér ætti að ganga vel. Ég kom til Finnlands fjórum dögum fyrir mót. Daginn fyrir mót var bara afslöppun, morgunmatur, ég kíkti í höllina til að horfa á keppendur og fór í góðan bíltúr. Ég horfði á nokkrar eldri lyftur af mér sjálfri til að peppa mig og sjá að þyngdirnar sem ég planaði að taka væru eitthvað sem ég réði við.“ Hún segir að hún hafi tekið út allt stress dagana fyrir mótið. „Það var auðvitað smá stress fyrir fyrstu lyftuna en eftir að hún náðist þá varð þetta þægilegra og ég reyndi bara að njóta sem mest og hafa gaman.“ Hún er mjög sátt með árangurinn á mótinu og segist ætla að halda áfram að æfa og finna sér ný markmið. „Auðvitað er ég himinlifandi yfir að vera heimsmeistari og hafa náð að setja bæði Evrópu- og heimsmet. Næstu dagar verða rólegir, bara svona lifa og njóta. Svo kemur hversdagsleikinn sem er að halda áfram að æfa og finna sér ný markmið.“
Að lokum vill Anna Guðrún þakka því fólki sem hefur sýnt henni mestan stuðning í þessu ferli. „Þjálfarinn minn, María Rún, hefur óbilandi trú á mér og hlustar á mig og veit hvað er best fyrir mig og skipuleggur æfingar eftir minni getu. Þær eru fjölbreyttar, skemmtilegar og árangursríkar eins og sjá má af árangri mínum. Ekki má gleyma Gunnari mínum, án hans er þetta ekki hægt. Hann er stoð mín og stytta og hefur komið með mér á öll mót erlendis á þessu ári og staðið sig mjög vel. Hann er eiginmaður minn, peppari nr. 1, fjölmiðlafulltrúi, umboðsmaður og þjálfari á mótum erlendis. Einnig öllum sem hafa trú á mér og þeim sem styrktu mig með bolakaupum eða öðrum styrkjum fyrir mótið.“