-6.5 C
Selfoss
Home Fastir liðir Hannyrðahornið Herra 60/60 sokkar

Herra 60/60 sokkar

Herra 60/60 sokkar

Í Hannyrðabúðinni er mikið úrval af einstaklega góðu og slitsterku sokkagarni í nokkrum mismunandi grófleikum og ekki spillir að þetta garn má þvo í vél. Garnið fæst í nokkrum ólíkum ullarblöndum og fjölda fallegra lita. Nýlega bættist enn ein tegund við hjá okkur, ullar og bambus blanda, sem er einstaklega mjúk og áferðarfalleg. Við stóðumst ekki mátið að prófa og fitjuðum upp á sokkum fyrir herrana og má segja það viðeigandi verkefni á Þorra.

Sokkarnir eru þunnir og léttir og auðveldlega má vera í þeim eintómum en það hefur þann kost í för með sér að menn komast í venjulega skó þó þeir séu í ullarsokkum. Garnið er mislitt og mynstrar sig sjálft og fæst í 6 ólíkum litum. Ein dokka nægir í þetta par og það var drjúgur afgangur.

Við kölllum sokkana 60/60 sokka, því talan 60 leiðir okkur í gegnum uppskriftina. Stærð sokkanna er miðuð við skóstærð 42-44.

Efni: 1 dk Himalaya Socks Bamboo, sokkaprjónar no 3.

Uppskrift: Fitjið 60 l upp á prjóna no 3 og prjónið 60 umferðir stroff, 1 sl, 1 br.  Prjónið því næst 60 umferðir slétt prjón.

Þá er komið að hælnum, en hann er prjónaður fram og til baka yfir 30 l, slétt á réttunni og brugðið á röngunni og er fyrsta lykkjan er alltaf tekin óprjónuð af. Prjónið alls 20 umferðir. Í næstu umferð byrjum við að móta hælinn, prjónið 21 l sl, næstu 2 saman, snúið við og prjónið til baka, takið fyrstu l óprjónaða, prjónið 12 l br,  og næstu tvær saman. Prjónið til baka, takið fyrstu l óprjónaða, prjónið 12 l sl og næstu 2 saman, snúið aftur við, fyrsta l tekin óprjónuð, 12 l prjónaðar br og svo 2 l br saman, snúið við og haldið áfram á þennan hátt þar til 14 l eru á prjóninum. Nú tínum við upp 13 l meðfram hælstykkinu, prjónum áfram slétt yfir 30 l sem geymdar voru á ristinni og tínum aðrar 13 l meðfram hælstykkinu hinum megin. Þá eiga að vera 70 l á prjónunum. Haldið áfram að prjóna í hring, en 2 síðustu l efst við hælstykkið  eru prjónaðar saman og hinum megin er fyrsta l tekin óprjónuð, næsta l prjónuð slétt og fyrri lykkju steypt yfir, þannig myndast fallegur úrtökukantur, endurtakið þetta í hverri umferð 5 sinnum. Nú eiga að vera 60 l á prjónunum. Prjónið áfram 60 umf sl.

Þá er komið að úrtöku fyrir tá. Prjónið 12 l sl, 2 l saman, 2 l sl, takið 1 l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið þeirri óprjónuðu yfir hana, prjónið 24 l sl, 2 l saman, 2 l sl takið 1 l óprjónaða, prjónið næstu l og steypið þeirri óprjónuðu yfir hana. Í næstu umferð eru prjónaðar 11 l, úrtaka, svo 22 l, úrtaka og loks 11 l. Endurtakið í hverri umferð þar til 14 l eru eftir á prjónunum, prjónið þá 2 sl saman alla umferðina, klippið garnið frá og dragið í gegnum lykkjurnar sem eftir eru.

Prjónið annan sokk eins. Gangið frá endum, skolið sokkana úr mildu sápuvatni og leggið til þerris.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir