-5 C
Selfoss

Sunnlenski matgæðingurinn

Vinsælast

Elva Óskarsdóttir er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Það er mikill heiður að vera matgæðingur vikunnar. Ég hef alltaf haft gaman af því að stússast í eldhúsinu og var ég því ekki lengi að segja já við þessari áskorun.

Þar sem haustið er að ganga í garð og tími hreindýraveiða er um þessar mundir ákvað ég að deila hér uppskrift að góðum hreindýrabollum.

Fyrir 4-5

Hreindýrabollur:
500 gr hreindýrahakk
1 bréf púrrulaukssúpa
1 pakki Tuc kex með beikonbragði (mulið)
1 egg
1 tsk villibráðakrydd
1 tsk Season all (eða sambærilegt krydd)
Salt og pipar eftir smekk

Blandið hráefnunum saman og mótið í meðalstórar bollur. Léttsteikið bollurnar á pönnu og setjið síðan inn í ofn við 180 gráður í 10-15 mín.

Gráðaostasósa:
4-500 ml matreiðslurjómi
80-100 gr gráðaostur
2-3 tsk rifsberjahlaup
Kjötkraftur eftir smekk.

Köld sósa sem einnig er góð með bollunum:
Blandið saman:
4-5 msk blönduð berjasulta
2-3 msk sweet chilli sósa

Sultaður rauðlaukur:
80 g smjör
5 rauðlaukar, þunnt skornir
100 g af púðursykri
180ml rauðvínsedik
1-2 tsk rifsberjahlaup

Bræðið smjörið á pönnu. Bætið við lauknum og steikið þar til laukurinn er orðinn mjúkur.
Bætið sykrinum við og látið malla þar til sykurinn er uppleystur.
Bætið rauðvínsedikinu við og náið upp suðu. Lækkið þá hitann og látið malla án loks í 15- 20 mínútur.

Borið fram með hrísgrjónum og góðu salati.

Í eftirétt mæli ég með Bestís eða Lúxus bragðaref frá Kjörís.

Ég þakka fyrir mig og vil skora á vinkonu mína Mattheu Sigurðardóttur að koma með uppskrift í næsta blað. Hún mun örugglega ekki valda vonbrigðum.

Nýjar fréttir