-9.7 C
Selfoss

Var rekin úr skóla fyrir að vera of ljót

Vinsælast

Elísabet Jökulsdóttir er ein af okkar fremstu skáldkonum og er þekkt fyrir verk sín og gjörninga. Meðal verka hennar eru bækurnar Heilræði lásasmiðsinsAprílsólarkuldi og Saknaðarilmur. Saknaðarilmur var sett á svið Þjóðleikhússins og hlaut mikið lof áhorfenda og var valin besta sýning ársins 2024 á Grímunni. Hún skrifaði nýlega undir samning við JPV-forlagið um útgáfu á nýjustu bókinni sinni Límonaði frá Díafani.

Uppvaxtarárin

Elísabet fæddist á Seltjarnarnesi árið 1958. Þar bjó hún fyrstu tíu árin og flutti þá í Vesturbæinn með fjölskyldu sinni. Mamma hennar var blaðamaður og rithöfundur og pabbi hennar leikritaskáld. „Öll fjölskyldan var að skrifa svo maður var ekki mjög frumlegur,“ segir Elísabet og hlær. Hún á tvo albræður, Illuga og Hrafn Jökulssyni, en Hrafn lést árið 2022. Hún á einnig þrjú hálfsystkini, þau Unni Jökulsdóttur, Magnús Jökulsson og Kolbrá Höskuldsdóttur.

Hún segir unglingsárin hafa verið fín en að sjálfsmyndin hafi verið brotin. „Þegar ég fór í Menntaskólann á Ísafirði þá vaknaði ég stundum og leit í spegilinn og sá hvað ég var ljót. Þannig að ég skrópaði í skólann. Svo var ég rekin fyrir að mæta of lítið þannig að það mætti segja að ég hafi verið rekin fyrir að vera of ljót,“ segir hún hlæjandi. Seinna meir fór hún í Kvennaskólann í Reykjavík og kláraði stúdentinn.

Elísabet eignaðist sitt fyrsta barn 18 ára með manni norðan af Ströndum. Þegar hún var tvítug kynntist hún svo æskuástinni og voru þau saman í 14 ár og áttu saman tvíbura. Á þeim tíma leiddist hún út í neyslu og fór í meðferð þegar hún var 34 ára. „Þetta var svakalegur heimur sem maður var inni í og maður þarf svona öðru hverju að minna sig á það, heila sjálfa sig fyrir að hafa verið þarna,“ segir hún.

Hefur gefið út 27 bækur

Elísabet gaf fyrstu bókina sína út árið 1989 eftir að hún fékk sína fyrstu tölvu. Bókin bar nafnið Dans í lokuðu herbergi.Síðan þá hefur hún verið að gefa út bækur. „Ég er búin að gefa út tuttugu og sjö bækur, bara edrú og fín.“ Elísabet segist þó hafa fengið geðsjúkdóm þegar hún var tvítug og telur að fráfall pabba hennar, hassreykingar og ástin geti verið ástæðan fyrir sjúkdómnum. „Svo eru tekin lyf við þessu í dag þannig að ég er voða stabíl og fín. Ég er edrú og á fullt af barnabörnum og skrifa bækur. Nú var ég að skrifa tvær í sumar sem var ótrúlegt vegna þess að ég fór í rosa sorgarferli þegar ég flutti í Hveragerði.“

Bækur Elísabetar eru orðnar 27 talsins og fleiri á leiðinni.
Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Átta mánaða sorgarferli í Hveragerði

Elísabet talar um það að hún hafi oft hugsað um það að flytja á Suðurland og að hún þekkti Hveragerði vel. Hún hefur dvalið tólf sinnum á Heilsustofnun og verið í KFUM og KFUK í Reykjadal í gamla daga. Hún ákvað að taka skrefið að flytja í Hveragerði úr Vesturbænum þegar hún var komin með mikinn kvíða og orðin nýrnaveik. „Ég gat ekki eldað mat, ég gat ekki farið í sturtu, ég gat ekki sett í poka í búðinni, ég gat ekki keyrt bílinn og ekki labbað út á götu. Þetta var rosalegur kvíði. Ég gat bara ekki verið heima hjá mér. Það voru brattar tröppur upp á klósett, það var verið að skipta um nýra í mér og út af því þurfti ég að fara oft á klósettið, ég þorði ekki upp stigann og þetta var bara orðið hræðilegt þarna heima hjá mér í algjöru töfrahúsi sem ég bjó í,“ lýsir Elísabet. Hún hafði búið í sama húsinu í Vesturbænum í 30 ár og gengið í gegnum margt á þeim tíma: alið upp börn, skrifað bækur, farið í meðferð og í forsetaframboð, allt í þessu húsi. Þess vegna var hún yfirkomin af sorg þegar hún flutti til Hveragerðis. Tilhugsunin um að yfirgefa húsið var ekki góð. Þá tók við átta mánaða sorgarferli í Hveragerði. „Ég vaknaði upp hérna einn morguninn og hugsaði að það væru liðnir átta mánuðir og ég búin að vera í sorgarferli allan tímann. Samt var ég búin að koma mér vel fyrir hérna og það var tekið svo vel á móti mér. Ég eignaðist góða nágranna og allir voru að bjóða mér í mat. Það er sagt að það að flytja sé svolítið eins og að deyja pínulítið og fá nýtt upphaf.“ Henni líður betur í dag og segir sorgarferlið ekki vera neitt mál fyrir sig og telur hún að hún hafi átt að flytja í Hveragerði.

Hugljúf og göldrótt bók

Nýjasta bók Elísabetar, Límonaði frá Díafani, kemur út 24. september nk. Hún er um litla stelpu, Ellu Stínu, sem Elísabet segir vera hitt sjálfið sitt. „Ella Stína er svolítið fræg af því hún hefur gefið út Galdrabók Ellu Stínu, Lúðrasveit Ellu Stínu og Bænahús Ellu Stínu,“ segir hún. Innblástur nýjustu bókarinnar kemur frá Grikklandsferð sem Elísabet fór í með fjölskyldunni þegar hún var átta ára gömul. „Við fórum til Grikklands á litla eyju og þar var allt öðruvísi heldur en heima og það var svo mikil uppljómun fyrir mig sem krakka. Ég held að þetta hafi verið mikil frjóvgun fyrir bernskuna.“ Hún minnist á að það hafi verið mikið ævintýri fyrir átta ára barn að upplifa nýjan stað. „Sérstaklega að fara þarna til Grikklands. Þá var maður að smakka nýtt límonaði. Ég er búin að vera að leita að þessu bragði alveg síðan ég fékk það fyrir fimmtíu árum.“ Þaðan kemur nafnið á bókinni Límonaði frá Díafani. Þorpið sem fjölskyldan dvaldi í í Grikklandi hét Díafani. Elísabet segir þessa ferð vera besta part bernsku sinnar.

Elísabet fær innblástur í flest verkanna sinna úr eigin lífi. Það er mikil dramatík og átök í mörgum þeirra og því hlakkar hún til að gefa út nýju bókina af því hún er saklausari en hinar. „Þetta er bara svona lítil bók, 90 blaðsíður og hún er með myndum af okkur þegar við vorum þarna í gamla daga. Mér finnst svo gaman að hafa gefið út bækur með Ellu Stínu, mér lítilli, og segja svona bernskusögu, af því að það var svo mikil dramatík að skrifa um sjálfa sig, mig og mömmu og geðhvörf. Svo kemur bara lítil bók um bernskuna, mér finnst hún svo hugljúf og göldrótt þannig að ég er voða ánægð að hún skuli koma út núna.“

Ljósmynd: Dfs.is/EHJ.

Kona lokast inni í Hveragerði

Elísabet liggur nú við skrif á dramatískari sögu en þeirri sem hún gefur út núna. Hún kemur út á næsta ári. Hún er um konu sem lokaðist inni í Hveragerði. „Hún fer ekkert út. Hún bara lokast í rauninni inni í íbúðinni en kallar þetta að lokast inni í Hveragerði. Þetta er svolítið sjálfsævisöguleg saga en þetta er samt alveg sjálfstæð saga,“ segir hún. Í bókinni er fjallað um hvernig konan lokast inni tíu sinnum í mismunandi aðstæðum. „Þetta er svona bók, ég held að margir kannist við þetta, að lokast inni í samböndum, lokast inni í vinnunni, vera óánægður í vinnunni og komast ekki úr henni. Mér finnst voða vænt um þessa konu og alltaf þegar ég segi að ég sé að skrifa bók um konu sem lokast inni í Hveragerði þá fara allir að hlæja og kannast við þetta.“

Nýjar fréttir