10 C
Selfoss

Stefnir á heimsmeistaratitil í Finnlandi

Vinsælast

Hvergerðingurinn Anna Guðrún Halldórsdóttir er á leið á heimsmeistaramót í ólympískum lyftingum í Rovaniemi í Finnlandi. Mótið fer fram dagana 5. til 14. september nk. Hún keppir í svokölluðum Masters flokki sem er fyrir 35 ára og eldri, en hún er í flokki 55-59 ára.

Anna Guðrún hefur sett 140 Íslandsmet og er handhafi 24 Íslandsmeta samkvæmt metaskrá LSÍ. Hún setti einnig fjögur heimsmet og sex Evrópumet á Evrópumóti í Noregi 17. júní sl. Hún keppti líka í Albaníu í apríl þar sem hún gerði níu Íslandsmet, þar sem hún setti þrjú og tvíbætti þau svo.

Hún var valin íþróttamaður Hveragerðis árið 2020 og tilnefnd aftur 2023. Bæði skiptin fyrir árangur í ólympískum lyftingum.

Planið fyrir heimsmeistaramótið í Finnlandi er að setja heimsmet í bæði snörun og jafnhöttun. Í samtali við Gunnar Biering, eiginmann Önnu, eru allar líkur á að það gangi eftir.

Hann segir undirbúninginn hafa gengið vel, en María Rún Þorsteinsdóttir sér um þjálfun. „Planið hefur alltaf verið að ná öllum sex lyftunum gildum. Í Noregi klikkaði ein lyftan en hún ákvað að halda sig við planið og þyngdi. Sú lyfta var gild og Evrópumet í höfn, ásamt heimsmetum,“ segir Gunnar. Það er ekki laust við að smá stress geri vart við sig nú þegar aðeins vika er í brottför og stutt í að hún stígi á pall.

Streymt verður frá mótinu á Youtube-síðu Painonnostoliitto SPNL, en planið er að hennar flokkur byrji kl 09 að íslenskum tíma sunnudaginn 8. september.

Nýjar fréttir