Klukkan 10:20 í morgun barst Brunavörnum Árnessýslu tilkynning um útaf akstur á Kjalvegi. Þrennt var í bílnum, tveir höfðu komist út af sjálfsdáðum en ökumaðurinn var fastur í bílnum og eitthvað slasaður. Bíllinn hafði farið utanvegar og hafnað á stóru grjóti. Um klukkustund eftir að tilkynning barst voru björgunarsveitafólk úr viðbragðsteyminu á Flúðum, slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Flúðum, lögreglan og sjúkraflutningamenn komin á staðinn, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar. Menntaðir sjúkraflutningamenn sem starfa hjá Mountaineers of Iceland við Skálpanes komu einnig á staðinn.
Í tilkynnigu frá BÁ segir að vanda hafi samstarf viðbragðsaðila gengið hnökralaust fyrir sig, en lögregla og björgunarsveit fluttu klippubúnað og slökkviliðsmenn á vettvang þar sem þeirra ökutæki gátu verið mun fljótari í förum en dælubifreið slökkviliðsins.
Ekki reyndist þörf á að beita klippum. Ökumaður og annar farþeginn voru fluttir á sjúkrahús með þyrlu. Hinn farþeginn var óslasaður og hélt för áfram með hópnum sem þau voru í.