-8.9 C
Selfoss

Hægur vöxtur á Skaftárhlaupi

Vinsælast

Töluverð óvissa er um áframhald hlaupsins í Skaftá og hversu stórt það muni verða. Rennsli í ánni við Sveinstind hefur aukist jafnt og þétt undanfarna daga og mælist nú tæplega 180 m³/s. Þetta rennsli er sambærilegt við mikið sumarrennsli en er þó í lægri kantinum miðað við hámarksrennsli í síðustu Skaftárhlaupum.

Þekkt eru hlaup úr Vestari-Skaftárkatlinum sem ekki ná miklu hámarksrennsli en vara lengi, allt frá 1 til 2 vikur. Mögulegt er að slíkt hlaup sé í gangi núna en það er þó enn of snemmt að fullyrða um það. Nú eru um þrjú ár frá síðasta hlaupi úr Vestari-Skaftárkatli, sem er óvenjulangur tími milli hlaupa. Því er líklegt að þetta hlaup eigi upptök sín þar, en það hefur þó ekki enn fengist staðfest. Vegna þessa er töluverð óvissa um áframhald hlaupsins og mögulega stærð þess.

Þrátt fyrir aukið rennsli hefur hlaupið ekki haft áhrif á helstu vegi á svæðinu en áfram verður fylgst náið með þróun þess. Rennsli í Eldvatni, nærri þjóðvegi 1, hefur einnig farið að aukast jafnt og þétt, en að svo stöddu er ekki vitað með vissu hversu umfangsmikið hlaupið mun reynast.

Ferðafólki er eindregið ráðlagt að halda sig fjarri farvegi Skaftár ofan Skaftárdals, svo og jöðrum Skaftárjökuls, Tungnárjökuls og Síðujökuls á meðan hlaupið stendur yfir.

Rennsli í Skaftá frá því síðdegis í gær 20. ágúst. Blá lína sýnir rennsli í Skaftá við Sveinstind en rauðlína rennsli í Eldvatni.

Nýjar fréttir