-8.9 C
Selfoss

Hvetja fólk til að verða sérfræðingar í eigin heilsu og hamingju

Vinsælast

Í sumar opnaði fyrirtækið Auðnast ehf. útibú á Selfossi. Blaðamaður settist niður með fjölskyldufræðingunum Katrínu Þrastardóttur og Gunnari Þór Gunnarssyni til að fræðast meira um starfsemi Auðnast en þau munu leiða starfsemina í Fjölheimum á Selfossi.

„Auðnast er leiðandi bæði í vinnuvernd sem og á sviði samtalsmeðferðar sem okkur þótti báðum mjög spennandi. Við höfum líka bæði verið miklir talsmenn þess að gott aðgengi sé að þjónustu í heimabyggð. Þar sem stjórnendur Auðnast höfðu áhuga á að bjóða upp á þjónustu á Suðurlandi fannst okkur tilvalið að stökkva á vagninn með þeim og vera hluti af teyminu og leggja þar með okkar að mörkum í að þjónusta Sunnlendinga,“ segja þau varðandi hvað hafi heillað þau við að ganga til liðs við Auðnast og taka þátt í opnun útibús á Selfossi.

Fræðsla, heilsuefling og forvarnir

Þá segir Katrín að hjá Auðnast sé þeirra helsta markmið að hvetja fólk og styðja það við að verða sérfræðingar í eigin heilsu og hamingju. „Við bjóðum upp á fræðslu, heilsueflingu og forvarnir til þess að stuðla að góðum og farsælum samskiptum bæði í leik og starfi. Auðnast býður upp á fjölbreytta þjónustu á sviði vinnuverndar, ráðgjafar, fræðslu og meðferðar og munum við bjóða upp á alla þá þjónustu fyrir Sunnlendinga í bækistöðum Auðnast á Selfossi.“

Hjá Auðnast er margþætt þjónusta í boði, Auðnast vinnuvernd annarsvegar og Auðnast klíník hins vegar. „Á klíníkinni bjóðum við upp á sálfræðiþjónustu, fjölskyldumeðferð og heilsufarsviðtöl. Í Auðnast vinnuvernd má til dæmis nefna þjónustusamninginn Heil heilsu en Auðnast hefur þróað öryggislausnir sem sniðnar eru að þörfum vinnustaðarins. Þá hafa stjórnendur greiðan aðgang að sérfræðingum og forgang að fagaðilum hjá Auðnast klíník. Hjá Auðnast vinnuvernd er hægt að fá áhættumat starfa, heilsufarsviðtöl og ráðgjöf, trúnaðarlæknaþjónustu, úttekt á vinnustöðum og bólusetningar,“ bætir Gunnar við.

Starfsfólkið í fyrsta sæti

„Vinnustaðir sem eru í þjónustusamningnum Heil heilsu hafa sett líðan starfsfólks síns í fyrsta sæti, en starfsfólki þeirra vinnustaða býðst að nýta mannauð Auðnast til að leita sér hjálpar með allt er varðar heilsu þeirra sjálfra og fjölskyldna þeirra, allt frá læknisheimsóknum yfir í hjónabands- og fjölskylduráðgjöf sem skilar sér í bættri líðan og andlegri, sem og líkamlegri heilsu þeirra sem starfa áviðkomandi vinnustöðum og nýta sér þessa þjónustu,“ segir Katrín.

Að lokum vilja þau Gunnar og Katrín hvetja öll áhugasöm til að kynna sér þjónustu Auðnast nánar með því að skoða heimasíðuna www.audnast.is eða kíkja á góðu ráðin sem þau eru dugleg að deila á reikningi Auðnast á Instagram.

Nýjar fréttir