10.6 C
Selfoss

Sjálfssinnun, lykil lífsgæða í haust og vetur

Vinsælast

Kristín Linda – sálfræðingur

Sífellt fleiri kjósa að nýta sér þjónustu, handleiðslu, ráðgjöf og meðferð sálfræðinga við ýmsum lífsins vanda. Kristín Linda, sálfræðingur hjá Huglind sálfræðistofu hefur nú opnað sína stofu fyrir Sunnlendinga í Fjölheimum á Selfossi. Þar tekur hún á móti fullorðnu fólki sem kýs að snúa sér til sálfræðings til að bæta líf sitt og líðan og fá hjálp við aðsteðjandi vanda.

„Hér áður þá fór fólk ekki til sálfræðings nema um einhverskonar heilsubrest væri að ræða eða mikið áfall en það er gjörbreytt í dag. Fólk kýs almennt að nýt sér faglega hjálp í gegnum allskonar erfiðleikatímabil sem koma í lífinu hjá okkur öllum og ná þannig að vinna sig sem best í gegnum vandann og blómstra sem fyrst á ný,“ segir Kristín Linda.

„Ég hef starfað sjálfstætt sem sálfræðingur í meira en áratug og upplifi að skynsömu fólki finnst nú sjálfsagt að panta sér tíma hjá sálfræðingi til dæmis þegar það er að ganga í gegnum breytingar. Það getur átt við varðandi, sambúð eða hjónaband, breytt fjölskyldumunstur  á einhvern hátt, breytingar í vinnu, á eigin heilsu eða í einkalífi, missi og sorg. Þá skiptir miklu að fá faglega ráðgjöf og meðferð við þeim vanda sem uppi er. Fólk velur líka að hitta sálfræðing reglulega  til að fá handleiðslu gegnum erfiða lífsviðburði eða í krefjandi stöðu eða vinnu. Allt er þetta af hinu góða enda mikilvægt að fólk sinni sjálfum sér, andlega, líkamlega og félagslega og viðhaldi þannig sem bestri heilsu, líðan og lífsgæðum. Við virkum einfaldlega betur, fyrir fólkið okkar, í vinnunni og samfélaginu öllu ef okkur líður að jafnaði vel, þó auðvitað sé lífið alltaf upp og niður hjá öllum. Þeir sem glíma við sálrænan heilsuvanda, svo sem kvíða, depurð, áföll eða þunglyndi ættu líka hiklaust að forgangsraða faglegri aðstoð sálfræðinga. Rétt eins og þeir sem fást við bakvandamál setja í forgang að sækja sjúkraþjálfun eða nudd. Mitt leiðarljós í starfi er líðan og lífsgæði þess sem hjá mér situr hverju sinni, að mæta viðkomandi strax varðandi þann vanda sem stendur yfir og finna bjargráð og lausnir til að bæta líðan, lífið er svo dýrmætt.

Mér finnst mikilvægt núna þegar haustið og veturinn nálgast eftir frekar grátt sumar að hvetja fólk til sjálfssinnunar. Það er ábyrg hegðun að sinna sjálfum sér á fjölbreyttan hátt og leita sér faglegrar ráðgjafar eftir því sem við á hverju sinni. Lífið tikkar áfram dag hvern og því fleiri daga sem við sitjum í vanlíðan því minni lífsgæði. Sinnum sjálfum okkur á fjölbreyttan hátt á komandi hausti og vetri,“ segir Kristín Linda sálfræðingur hjá Huglind.

Nýjar fréttir