-6.5 C
Selfoss

Hefur gengið 200 km til styrktar Tintron

Vinsælast

Pernille Tönder hefur nú fimm sinnum á fimm árum gengið ríflega 40 kílómetra leið í áheitagöngunni „Gengið til góðs“, þar sem hún og samferðafólk hennar safnar áheitum fyrir hjálparsveitina Tintron í Grímsnesi, en síðasta gangan var gengin þann 10. ágúst sl. og er áheitasöfnunin enn opin.

„Allt covid að kenna“

„Þetta er allt covid að kenna. Ég var í nokkur ár búin að vera með söluborð á Grímsævintýrunum á Borg þar sem ég seldi lakkrís sem fjáröflun fyrir íþróttastarf stráksins míns, en svo hætti hann í keppnisíþróttum og var þá engin ástæða fyrir mig að vera með söluborð lengur. Mér fannst hins vegar svo gaman að hitta fólkið í sveitinni og hafði verið sagt frá því að einhverjum árum áður hafði Tintron verið með lakkríssölu en hætt því aftur þar sem þeim fannst það ekki skila nógu miklu miðað við vinnuna sem lögð var í að manna söluborðið. Ég ákvað því að bóka aftur borð og gefa þeim það sem kæmi inn. Þetta var árið 2020, svo kom covid og hætt var við Grímsævintýrin. Svo þekkjum við öll pirringinn og litlu fluguna sem heldur áfram að suða þegar maður hefur ákveðið eitthvað og það verður svo ekkert úr því,“ segir Pernille í samtali við Dagskrána.

Á sama tíma höfðu þær Pernille og Bára vinkona hennar ákveðið að ganga frá Reykjavík og austur að Nesjavöllum en mennirnir þeirra eru báðir ættaðir þaðan. „Við höfðum labbað árið á undan en langaði nú að prófa nýja leið. Í byrjun ágúst 2020 byrjuðu svo alls konar auglýsingar um breytt fyrirkomulag á Reykjavíkurmaraþoninu og ég fékk þá hugmynd að í stað þess að selja lakkrís gætum við kannski bara haft gönguna okkar áheitagöngu. Ég hringdi í Báru og sagði henni frá hugmyndinni, hún hélt örugglega að ég væri gengin af göflunum en samþykkti samt,“ segir Pernille og hlær.

Þær settu upp auglýsingu á Facebook með lítilli von um viðbrögð en sáu svo að Tintron tók vel í hugmyndina og hjálpaði þeim að dreifa boðskapnum. Fyrir gönguna stungu meðlimir Tintron upp á því við Pernille að leyfa fólki að fylgjast með göngunni og úr varð Facebook-hópurinn Gengið til góðs. Áheitasöfnun til styrktar Hjálparsveitarinnar Tintron þar sem Pernille deildi ferðalaginu með áhugasömum. Göngunni lauk með góðum árangri og fyrstu áheitin voru komin inn. „Sú ganga skilaði 122.500 kr til Tintrons og vorum við bara mjög ánægðar með það. En okkur fannst líka mjög gaman að fólk frá Tintron tók á móti okkur við komu á Nesjavöllum og afhenti okkur viðurkenningarskjal,“ bætir Pernille við.

„Rosalega glöð“ að þurfa ekki að labba 40 kílómetra ein

Eftir fyrstu gönguna fóru samstarfsfélagar Pernille að tala um að þau ætluðu með næst. „Þó það hafi ekki verið búið að ákveða að fara aftur. Svo leið árið og þetta bara gleymdist. Sumarið ´21 fórum við svo aftur að tala um það í vinnunni og ég hugsaði: „Jájá, ég geri þetta bara aftur.“ Það gekk hins vegar erfiðlega að fá fólk með. Ég reyndi að auglýsa á síðunni og fékk mikil viðbrögð en samt ekki ákveðin svör, meira svona „kem ef ég kemst“. Ég var sem sagt ekki búin að fá neitt fólk með í lið svo þegar sonur minn skutlaði mér upp að Morgunblaðshúsinu, þaðan sem gangan hófst, og við biðum þar, var hann farinn að hugsa að hann yrði nú sennilega að fara að græja sig í göngugírinn og fara með mömmu svo hún þyrfti nú ekki að fara ein. En rétt um það leyti sem auglýst var að gangan mundi hefjast rann svo bíll inn á bílastæði Morgunblaðsins og út steig Sólveig Einarsdóttir leikskólastjóri í leikskólanum þar sem ég starfa. Við hlógum og ég var rosalega glöð að ég þyrfti ekki að labba 40 km ein og sonur minn ekki síður glaður að þurfa ekki að labba með mér,“ segir Pernille og hlær.

Þær fóru því tvær saman það árið. „Árið 2022 vorum við Sólveig mjög peppaðar að fara aftur og náðum að smala saman smá hóp, Ragnheiður S. Árnadóttir sem var einnig að vinna í leikskólanum, dóttir og barnabarn Sólveigar, Svandís Hlín Karlsdóttir og Alex. Árið 2023 kom Bára aftur með mér og einnig maðurinn hennar Ómar Úlfur Eyþórsson og svo hjón sem höfðu samband við mig, Kristín Júlía Pálsdóttir og Steinar Snorrason. Þá var ég sem sagt búin að fara fjórum sinnum og lofaði þá Tintron að ég mundi fara aftur í ár þar sem ekki væri hægt að stoppa eftir fjögur skipti, en að eftir það væri nú ekki víst að ég færi aftur,“ segir Pernille.

Í ár langaði Pernille svo að ná saman góðum hóp, helst öllu fólkinu sem hafði farið með henni hin árin. „Það væri gaman svona sem „lokaganga“. Hópurinn í ár taldi 8 konur: Báru, Sólveigu, Svandísi, Kristínu og mig og svo voru nýliðarnir Guðrún Jóna Sæmundsdóttir, Sigrún Lóa Svansdóttir og Valda Anastasia Kolesnikova og var meðalaldur göngukvenna 53 ár. Svo hefur nú líka alltaf verið hundur með í för, í fyrsta skiptið gamla tíkin mín Mylla og svo seinustu fjögur skiptin Lukka, sem tekur hlutverk sitt mjög alvarlega, að halda utan um hópinn.“

„Þú ferð nú ekki að hætta þessu núna“

Aðspurð hvort hún telji líklegt að hún muni endurtaka leikinn eftir að hafa gengið „Lokagönguna“ segir Pernille: „Úfff. Ég ætlaði nú eiginlega ekki að fara aftur en er ekki viss um að ég komist upp með að sleppa því úr þessu. Alla vega er fullt af fólki sem segist ætla að koma með næst… og þegar ég segist ætla að hætta fæ ég bara svip og: „Þú ferð nú ekki að hætta þessu núna.“ Það er samt þannig að EF það verður farið aftur þá VERÐ ég að fara, allir aðrir hafa val… en sjáum til. Ef áhugi er fyrir að fara aftur og fólk stendur við það að fara með þá sennilega verður aftur Gengið til góðs á næsta ári.“

Pernille heldur því fram að hún hafi ekki undirbúið sig sérstaklega fyrir göngurnar en hún leggur mikla áherslu á jákvætt hugarfar og góðan félagsskap. Hún segir að góðir gönguskór, bakpoki og rétt nesti skipti mestu máli fyrir árangur í göngunni og að fólk sem ræður við Fimmvörðuháls ætti að ráða við þessa göngu.

Tárin spýttust í allar áttir

Hvað eftirminnileg atvik úr göngunum varðar segir Pernille að það hafi alltaf gengið vel og allir komist heilir til byggða. „Þetta er allt mjög flott fólk sem hefur labbað með mér og gleðin mikil. En sennilega er eftirminnilegast þegar þær voru nokkrar 2022 alveg bugaðar úr þreytu þegar komið var 30 km og þær vissu ekki hvort þær áttu að gráta eða hlæja úr gleði eða verkjum. Þegar við áttum svona 5 km eftir og vorum komin á malbikið í Nesjalandi mætti okkur allt í einu hjörð af ungum nautgripum. Þrátt fyrir bugun og þreytta fætur urðu stelpurnar svo hræddar að þær stukku af stað öskrandi og dettandi yfir hverja aðra, sem hafði náttúrulega í för með sér að nautgripunum fannst þetta spennandi og skemmtilegt og fóru að skvetta upp rössunum og hlaupa til okkar. Ég bara varð að stoppa, ég hló svo mikið og settist niður og tárin spýttust í allar áttir… það var svakalega fyndið. Dýrin voru ekki ill heldur bara forvitin og en hvað veit maður þegar þreytan segir til sín?“

Stolt af þeim árangri sem göngurnar hafa náð

Þó að Pernille hafi ekki persónuleg tengsl við Tintron að öðru leyti en að hafa valið þau til að styðja, þá hefur samband hennar við sveitina þróast á jákvæðan hátt á þessum árum. Hún hefur séð hvernig peningar sem safnast hafa hjálpað sveitinni að kaupa nauðsynlegan búnað og er stolt af þeim árangri sem göngurnar hafa náð. Hún fylgist vel með því sem sveitin er að gera og segir að það sé gaman að sjá hvernig verkefnið hennar hefur haft áhrif.

„Tintron hefur getað gert ýmislegt fyrir peninginn. Fyrsta árið söfnuðust 122.500 kr. sem dugði fyrir búnaði fyrir einn bátsmann til björgunar á vatni, næst söfnuðust 195.000 kr. sem þeir nýttu til að merkja snjóbílinn sinn. Svo 280.000 kr. sem fóru í búr, þjálfunardót o.fl. fyrir björgunarhundana og í fyrra söfnuðust 123.000 kr. sem fóru upp í kaupin á dróna.

Ekki bara dropi í hafið

Varðandi stuðning frá samfélaginu segir Pernille að mörgum hafi þótt verkefnið skemmtilegt og flott. „Sumum finnst skrýtið að velja eina hjálparsveit fram yfir Landsbjörg, en fólk hefur val og þarf ekki að styrkja ef því finnst þetta asnalegt, getur þá bara styrkt Landsbjörg ef því finnst það réttara. Ég lít hins vegar þannig á það, að með því að safna fyrir eina sveit þá telur peningurinn helling inn í uppbyggingu og viðhald á meðan að ef það færi til Landsbjargar væri það bara dropi í hafið.“

Pernille segir að draumaupphæðin í söfnuninni í ár sé 280.000 kr. „Ástæðan fyrir því er að ef við náum því þá hefur á þessum fimm göngum safnast samtals 1.000.000 kr. og það er flott tala. Auðvitað er maður gráðugur og vill að það safnist sem mest, en þar sem allt fer beint inn á reikning Tintrons eru þau sem styrkja líka viss um að peningurinn renni óskertur til hjálparsveitarinnar, ekkert svindl. Ég veit ekki hverjir styrkja og hversu mikið og þannig á það að vera. Ég geng og styrki að sjálf sögðu líka og auglýsi grimmt á Facebook.

„Ég er stolt af sjálfri mér,“ segir Pernille um það sem hún hefur áorkað með göngunum. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að styðja hjálparsveitir, ekki aðeins fyrir þau sem þurfa á hjálp að halda, heldur einnig fyrir samfélagið í heild. „Við þurfum að hjálpa þeim svo þau geti hjálpað okkur,“ bætir hún við, og er staðráðin í að halda áfram að vekja athygli á og safna fyrir Tintron svo lengi sem áhugi og stuðningur er fyrir hendi.

Þau sem vilja heita á Pernille og hina göngugarpana geta millifært beint á Hjálparsveitina Tintron og merkt færsluna „Ganga 2024“. Kt: 490487-1319
Rn: 0586-26-456

Nýjar fréttir