-7.2 C
Selfoss

Gleðidagur í leikskólanum Árbæ

Vinsælast

Það var gleðidagur í leikskólanum Árbæ sl. föstudag þegar gengið var formlega frá samningi milli Sveitarfélagsins Árborgar og Hjallastefnunnar ehf. um rekstur leikskólans og sérstakur útikjarni opnaður.

Þegar leikskólinn Árbær opnaði eftir sumarleyfi ríkti mikil gleði og fögnuður en þá tók leikskólinn formlega til starfa sem Hjallastefnuskóli

Í lok síðasta árs gerðu Hjallastefnan og Sveitarfélagið Árborg samkomulag sín á milli um rekstur leikskólans. Hjallastefnan réði til sín leikskólastjóra, Maríu Ösp Ómarsdóttur, sem af mikilli röggsemi hefur stýrt þeim breytingum sem nauðsynlegar eru þegar aðilaskipti verða á rekstri leikskóla og ný uppeldisstefna innleidd.

Skemmtileg breyting hefur verið gerð á lóð og umhverfi skólans en í starfi Hjallastefnunnar er lögð áhersla á opinn efnivið og náttúrulegt umhverfi barna

Hefðbundin leiktæki hafa verið fjarlægð og lóðin hefur breyst í skapandi heim fyrir börn og starfsfólk. Útikjarni hefur risið á lóð skólans í sumar og var hann formlega tekinn í notkun í dag, föstudaginn 9. ágúst þegar Margrét Pála Ólafsdóttir höfundur Hjallastefnunnar og Bragi Bjarnason bæjarstjóri klipptu á borðann og buðu börnin velkomin til starfa í þessu glæsilega húsi. Um leið var skrifað formlega undir samning um rekstur leikskólans. Bæði tóku þau til máls og lýstu ánægju sinni með samstarfið og hversu vel undirbúningur hefur gengið.

Bragi fagnaði fjölbreytni í skólastarfi og auknu vali foreldra í Sveitarfélaginu Árborg. Margrét Pála tók undir orð Braga og lýsti gleði yfir þessari samvinnu þar sem gildi Hjallastefnunnar og Árborgar væru í miklum samhljómi.

Alma Guðmundsdóttir og Bóas Hallgrímsson, framkvæmdastjórar Hjallastefnunnar, nefndu að allt frá upphafi hafi markmið með góðum leikskóla og sýn á velferð barna farið saman. Undirbúningur og vinnan öll hefur verið skemmtileg og samstarfið við sveitarfélagið og starfsmenn sem hafa komið að verkefninu verðið afar gefandi og uppbyggilegt. Heiða Ösp tók undir orð framkvæmdarstjóra Hjallastefnunnar um að samstarfið hafi gengið vel og almenn ánægja væri með aukið val með tilkomu Hjallastefnuskóla en í heildina starfa sex leikskólar í Sveitarfélaginu Árborg.

Nýjar fréttir