-8.1 C
Selfoss

30 ár frá fyrstu Töðugjöldum

Vinsælast

Töðugjöld eru með elstu bæjarhátíðum landsins og hafa verið haldin árlega frá árinu 1994 að undanskildum covid-árunum 2020 og 2021.

Hátíðin hefur þróast og breyst í gegnum árin eins og gengur en hún er löngu orðin fastur liður í hugum Rangæinga.

Ég leitaði til þeirra Ernu Sigurðardóttur, Drífu Hjartardóttur, Viðars Steinarssonar og Óla Más Aronssonar sem öll reyndust hafsjór fróðleiks um sögu Töðugjaldanna, enda hafa þau öll komið að skipulagi hátíðarinnar.

Töðugjöld verða til 

Hugmyndin að Töðugjöldum varð líklega til við eldhúsborðið á Heiði á Rangárvöllum yfir kaffibolla snemma á 10. áratugnum. Þar bjó á þeim tíma Birgir Þórðarson sem sat svo í fyrstu undirbúningsnefndinni ásamt Drífu Hjartardóttur, Ernu Sigurðardóttur, Jórunni Eggertsdóttur, Agli Sigurðarsyni og Ragnari J. Ragnarssyni. Hugmyndin mótaðist í verkefnavinnu á vegum Atvinnuþróunarsjóðs Suðurlands en hátíðin var afrakstur átaksverkefnis í atvinnumálum í vesturhluta Rangárvallasýslu og fyrsta hátíðin var haldin í samstarfi flestra sveitarfélaga sýslunnar. Markmiðið í upphafi var að kynna framleiðslu héraðsins, menningu, náttúru og möguleika til útivistar, frístunda og framkvæmda.

Fyrstu árin var hátíðin ekki haldin inni í Helluþorpi heldur var aðalhátíðarsvæðið á Gaddstaðaflötum með viðburðum vítt og breitt um sveitirnar.

Mikið var um dýrðir árið 1994. Í grein sem birtist um hátíðina í Morgunblaðinu 23. ágúst 1994 er tíunduð sú metnaðarfulla dagskrá sem var sett upp.

Drífa í Fallhlífinni.

Dagskráin spannaði þrjá daga og ýmislegt var í boði. Drífa Hjartardóttir kom svífandi með fallhlíf niður á Gaddstaðaflatir til að setja hátíðina. Stökkið var skipulagt án hennar vitundar en hún ákvað þó að stökkva til, í orðsins fyllstu merkingu, og sér ekki eftir því. Bændur buðu heim á býli sín, gengið var á Heklu, opið hús var hjá Landgræðslunni og í minjasafninu á Keldum, bændamarkaður var haldinn á Gaddstaðaflötum og þar var einnig glæsileg grillveisla á laugardagskvöldinu, sem áætlað var að um þúsund manns hefðu sótt. Rekin var hestaleiga og listflugmenn sýndu listir sínar, leiktæki voru fengin að láni frá Reykjavíkurborg og haldnar voru ýmsar keppnir á borð við valkyrjukeppni, þar sem margar af sterkustu konum landsins kepptu í aflraunum. Plægingakeppni fór einnig fram sem og rafmagnsgirðingastökkkeppni.

Einn viðburðanna sem einna forvitnilegast er að hugsa sér árið 2024 var þegar dráttarvélalest ók alla leið frá Þjórsárbrú að Gaddstaðaflötum. 

Dráttarvélalestin 1996.

Verðlaunin Heimshorn og Hornsteinar voru afhent fyrstu árin. Þau voru samstarfsverkefni Töðugjalda og Sunnlenska fréttablaðsins og voru afhent fólki sem þótti hafa skarað fram úr á einhvern hátt. Heimshornið hlutu meðal annars Björk Guðmundsdóttir, Vigdís Finnbogadóttir, Kári Stefánsson, Sigurbjörn Bárðarson og heimsfrægi hvalurinn Keikó. Hornsteina hlutu sunnlenskir einstaklingar og fyrirtæki. Veitt voru verðlaun meðal annars fyrir atvinnu-, menningar- og umhverfismál.

Galakvöldverður- og ball var einnig haldið að Laugalandi í Holtum þar sem KK-sextett, Raggi Bjarna og Ellý Vilhjálms léku fyrir dansi, en hljómsveitin kom þarna saman sérstaklega af þessu tilefni eftir áratuga hlé. Hljómsveitin hafði þá ekki spilað saman frá áramótunum 1961-1962 og líklega var þetta í síðasta sinn sem Ellý kom fram á sviði, svo þetta var nokkuð sögulegur viðburður. Áætlað hefur verið að á milli fimm og sex þúsund manns hafi tekið þátt í hátíðinni sem var langt framar björtustu vonum.

Allt klárt fyrir galakvöldverð að Laugalandi 1994.

Hátíð vex og þróast

Fljótlega var ljóst að Töðugjöld voru komin til að vera og næstu árin var hátíðin haldin á Gaddstaðaflötum með svipuðum hætti. Upp úr aldamótum var hún orðin nokkuð stór útihátíð með viðamikilli dagskrá og fjölsóttum böllum. Það var varla til sú sveitaballahljómsveit sem ekki hafði spilað á Töðugjöldum og má þar nefna SSSól, Írafár, Í svörtum fötum, Sunnlendingana í OFL, Pláhnetuna með Stefán Hilmarsson í broddi fylkingar og Quarashi, sem kom fram á hátíðinni árið 1999. Margir helstu skemmtikraftar landsins komu á einhverjum tímapunkti á Töðugjöld, þeirra á meðal Örn Árnason, Gunni og Felix, Halli og Laddi, Björgvin Franz Gíslason og svo mætti lengi telja.

Þúsundir flykktust á svæðið og tjaldborgir risu við Gaddstaðaflatir. Vöxturinn varð á endanum slíkur að ákveðið var að draga saman seglin og endurhugsa hátíðina. Löggæslukostnaður var orðinn íþyngjandi með nýjum reglum og íbúum fannst líklega orðið nóg um fjöldann sem mætti orðið á svæðið ár hvert. Þetta var orðið minna íbúahátíð og meira útihátíð.

Margt um manninn á Gaddstaðaflötum 1994.

Sú ákvörðun var því tekin að færa hátíðina inn í þorpið. Hellu var skipt upp í hverfi, litaþemu tekin upp og hátíðarsvæðið fært á íþróttavöllinn á Hellu.

Fyrstu árin eftir að breytt fyrirkomulag var tekið upp var skipulagið að mestu í höndum áhugasamra íbúa með stuðningi frá sveitarfélaginu. Nýtt starf markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins varð svo til árið 2015 og frá og með árinu 2016 tók Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, sem ráðinn var í starfið, við skipulagstaumunum.

Eins og staðan er núna árið 2024 er skipulagið enn á ábyrgð markaðs- og kynningarfulltrúa í samstarfi við fulltrúa markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefndar og íbúa.

Hátíðarsvæðið 1996.

30 ára afmæli hátíðarinnar

Eins og fram hefur komið er hátíðin þrítug í ár og er það von undirritaðrar að Töðugjöld haldi áfram að þróast og dafna í takt við óskir íbúa.

Dagskráin verður með nokkuð hefðbundnu sniði í ár með nokkrum spennandi viðbótum sem teygja sig yfir alla Töðugjaldavikuna. Leiksýningin Kríukroppur

verður sýnd í Menningarsalnum á Hellu 11., 12. og 13. ágúst, Hellarnir við Hellu taka á móti unglingum í axarkast og bogfimi með víkingum 14. ágúst og sama kvöld bjóða þau 20 ára og eldri í hellaferð sem felur í sér ljúfa tóna Öðlinganna og kynningu frá Eimverk, Raddir úr Rangárþingi halda stórtónleika 15. ágúst, Töðugjaldahlaupið fer fram 16. ágúst og þá um kvöldið býður Gula hverfið einnig heim. Laugardagurinn 17. ágúst verður svo auðvitað smekkfullur af viðburðum sem endranær og ættu gestir á öllum aldri að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er yfir daginn eða á kvöldvökunni. Sunnudaginn 18. ágúst mætir Leikhópurinn Lotta á íþróttavöllinn með Bangsímonsýninguna sína og Hófí Samúels slær botninn í hátíðina með fjölskyldutónleikunum Hjartans mál í Menningarsalnum 18. ágúst kl. 17.

Meðal listamanna sem koma fram á Töðugjöldum í ár eru VÆB, Ingó Geirdal töframaður, Raddir úr Rangárþingi, skólahljómsveit Helluskóla, Emmsjé Gauti, Fríða Hansen og Kristinn Ingi og hljómsveitin FLOTT. Rúsínan í pylsuendanum verður svo að vanda óviðjafnanleg flugeldasýning Flubbó í lok kvöldvökunnar.

Góða skemmtun og njótið Töðugjalda!

Ösp Viðarsdóttir,
markaðs- og kynningafulltrúi Rangárþings ytra.

Nýjar fréttir