7.8 C
Selfoss

Gulli Ara kominn í Gallery Listasel

Vinsælast

Ólöf Sæmundsdóttir rekur Gallery Listasel í hinum fagra miðbæ Selfoss. Reglulega kemur til hennar myndlistarfólk og setur upp sýningar sem þess vegna standa í einn mánuð í senn. Nú er á ferðinni allan ágústmánuð góður gestur Gulli Arason GARASON sem býr í Danmörku en er okkur Íslendingum betur þekktur sem Guðlaugur Arason rithöfundur og myndlistamaður. Sem rithöfundur skrifaði hann kunnar bækur svo sem Pelastikk og Eldhúsmellur ásamt fleiri bókum og var oft leiðsögumaður um frægar slóðir Íslendinga í Kaupmannahöfn og skildi eftir sig bókina Gamla góða Kaupmannahöfn um söguslóðirnar sem margir styðjast við enn í dag.

Síðustu árin hefur Guðlaugur helgað sig myndlist og gerir svokallaðar Álfabækur. Í Gallery Listaseli eru margar Álfabækur eða myndir með örsmáum eftirgerðum af íslenskum sem erlendum bókum. Hver bókaskápur er heimur út af fyrir sig og þar búa bæði skáld og kynjaverur. Í hverju myndverki leynist lítill verndarálfur, ártal og nafn höfundar. Áhorfandinn þarf að staldra við og gefa sér góðan tíma meðan ímyndunaraflið fer á flug. Gulli rifjaði upp fræga vísu Hjálmars Jónssonar þegar Eldhúsmellubókin var sem frægust:

Hefur brellið hugarþel
haus af dellu bólginn
Annars fellur okkur vel
við eldhúsmelludólginn

Ólöf og Gulli bjóða ykkur velkomin á sýninguna.

Nýjar fréttir