Nóg var um að vera hjá lögreglunni á Suðurlandi um verslunarmannahelgina, en í sumar hefur umferðareftirlit verið öflugt í umdæminu.
Um helgina voru alls 29 ökumenn stöðvaðir fyrir of hraðan akstur, 16 fyrir ölvunarakstur og fjórir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá voru þrír stöðvaðir fyrir akstur án gildra ökuréttinda.
Af þeim sem stöðvaðir voru fyrir of hraðan akstur var sá sem hraðast ók á 143 km. hraða. Einn þeirra sem ók undir áhrifum fíkniefna var sviptur ökuréttindum og var farþegi bifreiðarinnar með töluvert magn fíkniefna sem lögreglu grunar að hafi verið ætluð til sölu og/eða dreifingar.
Þrjú umferðaróhöpp urðu á svæðinu um helgina. Einn ökumaður ók á búfé á Þingvallavegi, annar missti stjórn á bifreið sinni sem hafnaði ofan í læk en slapp ómeiddur og betur fór en á horfðist þegar húsbifreið fauk á hliðina með fjóra farþega og ökumann innanborðs.