Hamingjan við hafið, bæjarhátíð í Ölfusi, er haldin í Þorlákshöfn dagana 6. – 11. ágúst. Hátíðin er fjölskyldu- og menningarhátíð og eru gestir boðnir velkomnir í Hamingjuna til að taka þátt í gleðinni. Íbúar og fyrirtæki taka virkan þátt í hátíðinni og ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Íbúar skreyta hús sín og garða í hverfislitum og er gaman að skoða fallega skreytt hús.
Dagskráin hefst í dag, 6. ágúst, er leikhópurinn Lotta kemur í heimsókn í Skrúðgarðinn. Á morgun, 7. ágúst, er sundlaugarpartý þar sem Diskótekið Dísa sér um stuðið. Fimmtudaginn 8. ágúst er m.a. ganga á vegum Ferðamálafélags Ölfuss, harmonikkuball á Níunni og opin hljómsveitaræfing á pallinum hjá Robba Dan og Guðlaugu.
Á föstudaginn er hin árlega litaskrúðganga hverfanna en Lúðrasveit Þorlákshafnar smalar saman bæjarbúum og gestum hamingjunnar. Um kvöldið verður kvöldvaka í Skrúðgarðinum þar sem m.a. Lay Low, Júlí Heiðar, Hr. Eydís, Moskvít og VÆB koma fram. Síðar um kvöldið verður ball þar sem Sunnan 6 sjá um fjörið.
Á laugardag verður sannkölluð menningarveisla. Allan daginn verður markaðsstemning í tjaldinu og fjölbreytt dagskrá fyrir krakkana þar sem verður m.a. boðið upp á BMX brós, krakkadiskó, söngkeppni, hoppukastala, sjóstökk á bryggjunni, veltibílinn o.fl.
Um kvöldið verða Hamingjutónleikar þar sem landsfrægir tónlistarmenn stíga á stokk en þar má nefna Elísabetu Ormslev, Daníel E. Arnars, Herra Hnetusmjör, Ívar Daníels, Jónas Sig og Stefaníu Svavars o.fl. Hamingjuhljómsveitin sér um ballið og munu stórsöngvararnir Matti Matt, Stefán Hilmarsson og Unnur Birna þenja raddböndin.