6.7 C
Selfoss

Ratatouille

Vinsælast

Steinar Lúðvíksson er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil þakka Hirti fyrir þessa frábæru áskorun. Frá því ég var lítill hef ég mikið dundað mér í eldhúsinu. Nú með þrjá unga drengi eru þessar stundir öðruvísi en ávallt skemmtilegar.

Á sumrin er auðvelt að nálgast ferskt og gott grænmeti og því kjörið að láta ratatouille malla í ofninum á góðum sunnudegi þegar sólin skín á bak við rigningaskýin. Þetta er fyrst og fremst undirbúningur en í kjölfarið dregur tíminn fram það besta úr hráefnunum.

Ratatouille

Grunnsósa

1 laukur
2 gulrætur
1 stilkur sellerí
2 hvítlauksrif
2 rauðar paprikur
2 rauðir chili
1 dós tómatar í dós
Herb de provence-krydd
Örfá fersk basilíkublöð

Paprikur og chili er brennt í ofni við 220°/grill (eða á gasbrennara) þar til alveg svart og í kjölfarið lokað í skál með plasti eða loki yfir í 10 mínútur. Þá er það tekið úr skálinni og eldhúspappír notaður til að nudda burt brennda hlutann. Paprikurnar og chili opnað, fræhreinsað og skorið smátt. Laukurinn og gulræturnar skornar smátt og svissað á pönnu upp úr smá ólífuolíu og smjöri þar til mjúkt. Þá er paprikunni og tómatinum í dósinni bætt við. Látið malla við vægan hita í 10-15 mínútur og kryddað með salti, pipar og Herbs de provence-kryddi. Í lokin er sósan síðan blönduð saman með töfrasprota og er þá nokkrum basilíkublöðum blandað í sósuna. 

Grænmetið

2-3 kúrbítar
2-3 eggaldin
6-8 stórir ferskir tómatar

Allt grænmetið er skorið í jafn þunnar sneiðar (tæpan 1 cm) með mandólíni eða með beittum hníf.

Kryddolía

Ólífuolía
2 hvítlauksrif
Timían
Basilíka
Salt og pipar eftir smekk

Timían og basil er skorið smátt og hvítlaukur pressaður. Öllu blandað í ólífuolíu með salti og pipar.

Samsetningin

Ofninn er hitaður í 150° undir og yfir hita. Sósan er sett í grunninn í hringlaga eldfast mót. Grænmetinu er svo raðað/staflað sitt á hvað ofan á sósuna. Hér er tækifæri til að láta sköpunargáfuna njóta sín. Að lokum er kryddolíunni dreift yfir grænmetið og eldfasta mótinu lokað með álpappír. Setjið inn í ofn í 2,5 klst. Álpappír tekinn af og hiti hækkaður í 190° til að leyfa grænmetinu að brúnast örlítið í 45 mínútur. Eldfasta mótið er tekið út og leyft að jafna sig í að lágmarki 20 mínútur áður en byrjað er að gæða sér á því.

Ég vil ljúka þessu með því að skora á vin minn Garðar Geirfinnsson. Þegar hann er ekki að mennta æsku þessa lands þá er hann að nostra í mat og drykk.

Nýjar fréttir