12.7 C
Selfoss

Gæsa/villibráðahamborgari með pikkluðum rauðlauk, bláberjasultu og blámygluosti

Vinsælast

Hjörtur Ragnarsson er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil þakka bróður mínum fyrir að henda mér í þessa áskorun. Matur er ofarlega í huga hjá mér alla daga. Hvað ég get prófað að búa til næst og hvað á að elda í kvöld. Ég hef gaman af því að prófa mig áfram í eldhúsinu og af því tilefni ætla ég að henda í aðeins öðruvísi útgáfu af sumarlegum hamborgara.

Gæsa/villibráðahamborgari með pikkluðum rauðlauk, bláberjasultu og blámygluosti

Pikklaður rauðlaukur

Rauðlaukur,
Rauðvínsedik
Salt og pipar
Sítrónusafi

Rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar (heill hringur eða hálfur eftir smekk), í skál og hellt yfir rauðvínsediki og smá sítrónusafa úr ca hálfri sítrónu. Raspið smá börk af sítrónunni yfir og saltið og piprið eftir smekk. Setjið í kæli og veltið reglulega upp í þessu í u.þ.b. 30 mín.

Gæsa/villibráðahamborgari

60% gæsalærishakk eða önnur villibráð hökkuð niður (má nota hvaða villibráð sem er)
40% grísahakk (ég hakkaði niður grísasíðu)
salt og pipar

Hakkið niður villibráð annars vegar og grísasíðu hins vegar og blandið saman hakkinu. Hakkið það svo aftur eftir að hafa blandað því saman. Gott er að búa til um 150-160+ gr hamborgara því þeir rýrna á grillinu. Eldið þá medium í ca 56-62° eftir smekk. Í lok eldunar setjið Ljót blámygluost á borgarana og látið bráðna.

Piparrótarmajó

Hellmanns majónes
Piparrótarmauk
Salt
Sítrónusafi

Setjið majónes í skál og hrærið piparrót saman við smá í einu og smakkið til. Setjið smá salt og sítrónusafa út í og hrærið.

Grillið sætkartöflubrauð, smyrjið með bláberjasultu og piparrótarsósu yfir á bæði brauðin. Klettasalat, pikklaður rauðlaukur, hamborgarinn með ostinum og loka svo herlegheitunum. Ég sjálfur vil hafa smá bit í minni matseld og setti jalapeno hjá mér en það er eðlilega smekksatriði.

Ég vil að lokum skora á vin minn Steinar Lúðvíksson sem er mikill matgæðingur og nostrari í eldhúsinu. Treysti því að hann komi með einhverja glæsilega veislu fyrir okkur.

Nýjar fréttir