Skátar fagna því að geta komið aftur saman eftir 8 ára hlé á Landsmóti skáta sem haldið er dagana 12.-19. júlí í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Fella þurfti síðasta mót vegna Covid-19. Var það vel við hæfi að halda landsmótið á Úlfljótsvatni í ár þar sem fyrsta mótið á Úlfljótsvatni fór einmitt fram fyrir 50 árum.
Það sem hefur einkennt landsmótin hingað til eru samheldni, gleði og skátaandi og var mótið núna engin undantekning. Skátar frá öllum landshornum eru mætt til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá, skapa ógleymanlegar minningar og styrkja vináttuböndin. Þema mótsins í ár er „Ólíkir heimar“ sem vísar til þess að á landsmóti eru ekki bara íslenskir skátar heldur koma skátar alls staðar að úr heiminum, enda er skátahreyfingin stærsta æskulýðs- og friðarhreyfing í heimi.
Dagskráin á mótinu er fjölbreytt og skemmtileg þar sem öll ættu því að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, reynt við nýjar áskoranir og á sama tíma eignast nýja vini. Dæmi um dagskrá eru hike-gönguferðir, sköpunarsmiðjur, bogfimi, klifur og stór þrautasvæði. Stór hluti skátastarfs byggir á þjónustu við samfélagið og munu því allir skátar mótsins taka þátt í því að bæta heiminn í einn dag, og vinna verkefni sem byggja upp miðstöðina á Úlfljótsvatni.
„Dagskráin er byggð upp sem ævintýraleg, skemmtileg og krefjandi með áherslu á fjölbreytni. Við vildum efla tengsl skátanna við náttúruna með gönguferðum í nágrenni Úlfljótsvatns og styrkja samfélagsábyrgð skátanna með verkefnum sem byggja upp Úlfljótsvatn. Ég vona að öll njóti og skemmti sér vel þessa skátaviku,“ segir Sædís Ósk Helgadóttir, dagskrárstýra á Landsmóti skáta.
Nýtt bæjarfélag á Úlfljótsvatni
Tjaldbúðirnar á svæðinu rúma hvorki meira né minna en 2000 skáta og fjölskyldur þeirra og þannig mætti segja að nýtt bæjarfélag hafi verið reist á Úlfljótsvatni á aðeins örfáum dögum.
Það rigndi vel á skátana á fyrsta degi Landsmóts. Skátarnir létu það þó ekki á sig fá og komu upp tjaldbúðum, elduðu mat og skemmtu sér vel. Þegar líða fór á kvöldið bætti þó heldur í rigninguna, stórir pollar mynduðust á tjaldflötunum og sum tjöld fóru á flot. Þar sem skátar eru einkar lausnamiðaðir og hjálpsamir voru því öll stærri tjöld nýtt til þurrkunar á minni tjöldum og öðrum búnaði. Brugðið var á það ráð að moka litla skurði sem stýrðu vatninu frá tjaldflötunum.
Öll velkomin á heimsóknardaginn
Á heimsóknardeginum þann 18. júlí geta þau sem vilja komið í heimsókn á mótið og tekið þátt í dagskrá, rölt um svæðið og kynnst skátafélögunum sem mörg hver verða með kynningar, leiki og fleira. Einnig er hægt að kíkja á kaffihúsið í Strýtunni og fá sér kaffi og vöfflur eða versla í Skátabúðinni og enda svo daginn á hátíðarkvöldvöku.