-8.3 C
Selfoss

Alveg ótrúlega margt að gerast hérna

Vinsælast

Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri Rangárþings eystra var tekinn tali þegar skemmtileg Kjötsúpuhátíð stóð yfir á Hvolsvelli fyrir skömmu. Hann var fyrst spurður hvaða framkvæmdir væru fyrirferðarmestar hjá sveitarfélaginu núna?

Viðbygging við Kirkjuhvol gengur samkvæmt áætlun
„Við erum að byggja 1500 fermetra viðbyggingu við dvalar- og hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol. Jáverk ehf. sér um þær framkvæmdir og hafa þær gengið samkvæmt áætlun. Kostnaðaráætlun er um 600 miljónir. Af því borgar ríkið 200 milljónir og við 400 milljónir. Það er auðvitað ósanngjarnt því hjúkrunarheimilin eru í raun ríkisstarfsemi en við teljum nauðsynlegt að búa öldruðum enn betra umhverfi enda ljóst að þjónusta við aldraða mun aukast í framtíðinni. Við höfum gert fjölmargt fyrir unga fólkið en nú er komið að eldri kynslóðinni. Þess vegna fórum við líka út í 60+ hreyfingarátakið sem við ætlum að halda áfram með í vetur,“ segir Ísólfur Gylfi.

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Eangárþings eystra. Mynd: SJ.

Endurnýjun á kaupfélagshúsinu að Austurvegi 4
„Síðan erum við að endurnýja Austurveg 4 þar sem gömlu kaupfélagshúsin eru. Þangað ætlum við að flytja skrifstofur okkar en þær eru á nokkrum stöðum núna. Byggingafulltrúinn er t.d. núna í sér húsnæði en verður þar ásamt Kötlu geopark og skólaskrifstofu sem við höfum verið með. Þannig að nánast öll starfsemi tengd sveitarfélaginu verður þarna á einni hæð. Við getum líka leigt fleiri aðilum húsnæði þar. Það er heilmikil framtíð í þessu enda er þetta hús á besta stað í bænum. Ef allt gengur samkvæmt áætlun ættum við að geta flutt þangað í mars eða apríl á næsta ári. Við eigum þetta húsnæði, keyptum það fyrir nokkrum árum. (Ríkið hefur keypt núverandi húsnæði þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru undir starfsemi Lögreglustjórans á Suðurlandi.) Þá er verið að byggja við verslunarhlutann og bæta við 200 fermetrum en þangað kemur Krónan með verslun. Það verður til þess að verslunin sem þar er mun loka væntanlega í 4–6 vikur meðan á framkvæmdum stendur vegna þess að húsnæðið verður algjörlega endurnýjað. Við vorum með verkfundi fyrir stuttu og það er líklegt að hún loki í febrúar. Þá verða menn bara að fara annað og versla meðan á því stendur,“ segir Ísólfur Gylfi, og bætir við að verkefnið skipti samfélagið miklu máli.

Mikill uppgangur í byggingastarfsemi
Mikill uppgangur er í byggingastarfsemi á Hvolsvelli um þessar mundir eins og víða á Suðurlandi. Ísólfur Gylfi segir að nú séu hafnar framkvæmdir við nýja götu sem heitir Gunnarsgerði og að þegar sé búið að úthluta þar nokkrum lóðum. Einnig að nú sé að klárast skipulag íbúðasvæða sem hægt verður að úthluta og byggja á núna í sumar, samtals um 50 lóðir. „Þess má geta að Sláturfélag Suðurlands ætlar að byggja 24 íbúðir hér á Hvolsvelli. Þær verða ekki allar á sama stað heldur ætla þeir að dreifa þeim í þrjú hverfi. Það eru litlar nettar íbúðir sem hefur vantað hérna. Gylfi Guðjónsson arkitekt hefur teiknað þær í samvinnu við SS. Þeir eru ekki byrjaðir en eru búnir að fá lóð undir átta íbúðir við Gunnarsgerði. Það verður trúlega byrjað á þeim á þessu ári.“ Ísólfur Gylfi bætir við að nú sé í vinnslu deiliskipulag fyrir miðbæjarsvæði á Hvolsvelli, þar sem gert er ráð fyrir fjölda lóða fyrir verslun og þjónustu ásamt þrjátíu íbúðum. Einnig sé gert ráð fyrir veglegu hátíðarsvæði í miðbænum.

Ljósleiðari um sveitina
Af öðrum verkefnum sveitarfélagsins nefnir Ísólfur Gylfi að verið sé að leggja ljósleiðara um alla sveitina þ.e. allt dreifbýlið. Fyrsti áfangi er Eyjafjöllin en þau eru á þessari stundu að klárast. „Við völdum þann kostinn að selja kerfið og buðum það út. Míla bauð best í Eyjafjöllin og keypti kerfið. Núna erum við í öðrum áfanga og er gert ráð fyrir að honum ljúki um áramót. Ljósleiðaralagning tekur samt yfirleitt lengri tíma en menn búast við, það er reynsla okkar, en við vonum hið besta. Við munum á sama hátt auglýsa það kerfi til sölu. Við ætlum s.s. ekki að eiga ljósleiðarakerfið. Sum sveitarfélög hafa valið þá leið en fleiri að selja þetta eins og við gerum.“

Ný hótel í sveitarfélaginu
Tveir aðilar eru búnir að sækja um lóðir fyrir tvö ný hótel á Hvolsvelli. Annars vegar er um að ræða hótelbyggingu sem fyrirhuguð er við hliðina á LAVA eldfjallamiðstöðinni sem er glæsileg 3.000 fermetra bygging með sýningarsölum, sýningum, verslun og veitingastað. Svo hefur annar aðili, sem er kínverskur, sótt um lóð fyrir hótel við Dufþaksbraut. Þar er gert ráð fyrir 114 herbergja hóteli. Sá aðili er búinn að leggja inn byggingarnefndarteikningar og því flest sem bendir til að það hótel verði að veruleika.

Margt að gerast
Einstaklingar hafa verið duglegir að framkvæma ýmislegt í sveitarfélaginu eins og t.d. Midgard Base Camp. Ísólfur Gylfi segir að að baki því sé mjög skemmtileg hugmynd. „Það er í raun og veru allt í senn, ferðaskrifstofa, veitingasala, fjölbreytileg gistiaðstaða, tónleikastaður, staður þar sem að hægt að horfa á ensku knattspyrnuna og fleira. Þar er gaman að sjá hús sem var í niðurníðslu og ekkert notað vera nú með bullandi lífi. Þetta er í rauninni nýtt á Íslandi. Þeir kalla þetta „Base Camp“ en ég hefði bara viljað kalla þetta höfuðból, „Miðgarður höfuðból“ á íslensku.“ Ungt fólk sem hefur verið í ferðamannanámi hefur verið að flytjast heim og taka þátt í þessu ævintýri.“

„Svo má líka nefna að í byrjun september verður opnuð ný aðkoma að Skógasafni í Skógum. Þar er glæsileg aðstaða og líka mikið búið að laga umhverfi þar. Í Skógum er einnig verið að byggja við Hótel Skóga. Síðan er komið mjög myndarlegt hótel í Skálakoti. Á Rauðsbakka undir Eyjafjöllum er líka nýbyggt hótel. Í Hellishólum í Fljótshlíð er verið að byggja annan áfanga að hóteli en sá aðili byggir það hótel í þremur áföngum. Þannig að það er alveg ótrúlega margt að gerast hérna. Þá hefur verslun risið í Skarðshlíð en þar var vel þekkt verslun í gamla daga.“

Vinsælir ferðamannastaðir
Nokkur umræða hefur verið um vinsæla ferðamannastaði í sveitarfélaginu. Hvernig gengur að vinna að framgangi þeirra mála?
„Varðandi Skógafoss þá hefur Umhverfisstofnun staðið sig með miklum ágætum. Skógafoss komst á rautt svæði hjá stofnuninni þ.e. hættusvæði vegna átroðnings. Það hefur verið varið heilmiklu af peningum í að koma Skógafosssvæðinu af þessu rauða svæði. Umhverfisstofnun og sveitarfélagið hafa gert það í samvinnu. Eignaraðilarnir þar eru héraðsnefndirnar í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Þar er um að ræða alls fimm sveitarfélög og því er þetta svolítið flókið kerfi. Á sama hátt er landeigendafélag við Seljalandsfoss. Þar eru fjögur býli sem eiga landið á móti sveitarfélaginu. Sveitarfélagið á Hamragarða, Gljúfrabúa og það svæði. Seljalandsbæirnir eiga svo fossinn og svæði að honum. Þar eru landeigendur annars vegar og sveitarfélagið hins vegar í samvinnu. Þar hófst gjaldtaka í júlí sl. Það voru auðvitað ýmsir byrjunarörðuleikar á því en engu að síður er þetta nauðsynlegt til þess að geta byggt upp svæðið. Hugmyndin er fyrst og fremst sú að nýta þá peninga sem koma þarna inn til þess að auka og efla þjónustu og styrkja innviðina.“
Ísólfur Gylfi segir að deiliskipulag við Seljalandsfoss og Hamragarða sé á lokametrunum en þar er gert ráð fyrir talsverðum breytingum í aðkomu, bílastæðum, göngustígum, þjónustumiðstöð o.fl. Deiliskipulag fyrir Þórsmörk er einnig í lokaferli. Þar er m.a. gert ráð fyrir göngubrú úr Fljótshlíð í Húsadal og nokkrum ferðaþjónustulóðum í Húsadal og í Básum.
„Að lokum má nefna að við erum þátttakendur í miklu og skemmtilegu framtíðarverkefni með Mýrdalshreppi og Skaftárhreppi sem er Katla jarðvangur sem er alþjóðlegt verkefni sem Unesco hefur viðurkennt. Þar er verk að vinna og tengist m.a. starfsemi skólanna, fyrirtækja og stofnana eins og sveitarfélaganna. Þannig að óhætt er að segja að við höfum verk að vinna á mörgum vígstöðvum.“

Viðtal: ÖG.

Myndir:

(Ísólfur Gylfi 2)

Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Nýjar fréttir