-6.1 C
Selfoss

Heklukot 50 ára

Vinsælast

Fyrsta júní síðastliðinn fór fram afmælishátíð Leikskólans Heklukots á Hellu sem fagnar 50 ára starfsafmæli í ár.

Margt hefur breyst á 50 árum, sífellt bætist við barnahópinn og nú styttist í að hafist verði handa við byggingu nýs leikskóla í framhaldi af viðbyggingu grunnskólans.

Sveitarfélagið hóf fyrst rekstur leikskóla sumarið 1975 undir stjórn Sólveigar Stolzenwald. Fyrir þann tíma höfðu einstaka konur sinnt barnagæslu í heimahúsum auk þess sem kvenfélag Oddakirkju hafði staðið fyrir rekstri leikskóla sumarið 1974.

Fyrsta starfssumarið sinnti Sólveig 25 börnum og hafði eina 13 ára stúlku, Önnu Steinþórsdóttur, sér til aðstoðar. Í sumarlok 1975 stóð til að loka leikskólanum fyrir veturinn en þá var ljóst að full þörf væri á heilsársstarfsemi. Sólveig fór þá á fund þáverandi sveitarstjóra, Jóns Gauta Jónssonar, með það að markmiði að halda leikskólanum opnum áfram. Sú varð niðurstaðan og síðan hefur leikskóli verið rekinn allt árið á Hellu.

Í dag er Heklukot 5 deilda heilsuleikskóli, þar starfa 30 manns og börnin eru tæplega 90. Heklukot er grænfánaleikskóli og fékk einmitt sjöunda grænfánann afhentan á afmælishátíðinni. Grænfánaverkefnið snýst í stuttu máli um að kenna börnunum að ganga vel um náttúruna, flokka sorp og fræða þau um náttúruvernd.

Fjölmenni var á hátíðinni en þangað var meðal annars boðið öllum fyrrum leikskólastjórum Heklukots. Dýrin í Hálsaskógi mættu á svæðið, Andri Eyvindsson spilaði skemmtileg barnalög, andlitsmálning var í boði og auðvitað veitingar eins og hver gat í sig látið.

Gaman er að geta þess að tvær heiðurskonur fengu viðurkenningu á hátíðinni fyrir framlag sitt í þágu leikskólans. Það voru þær Sigurlína Magnúsdóttir, sem hefur saumað fjölnota þurrkur úr gömlum handklæðum fyrir leikskólann, og Helga Kristinsdóttir, sem hefur prjónað sokka og vettlinga á börnin.

Rangárþing ytra

Nýjar fréttir