-5.4 C
Selfoss

Listasafn Árnesinga hlýtur Menningarverðlaun Hveragerðisbæjar

Vinsælast

Listasafn Árnesinga hlaut Menningarverðlaun Hveragerðisbæjar árið 2024. Verðlaunin voru afhent af menningar-, atvinnu- og markaðsnefnd á hátíðahöldum 17. júní. Safnið er einn af hornsteinum menningar í bænum, með fjölbreyttum sýningum og fræðslustarfi fyrir skóla, listamenn og almenning.

Kristín Scheving, safnstjóri, tók við verðlaununum af Mörtu Rut Ólafsdóttur, formanni menningar-, atvinnu- og markaðsnefndar. Listasafnið, sem er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga, er sameign allra sveitarfélaganna í Árnessýslu.

Verðlaunagripurinn, Menningarstólpinn, var hannaður af Hrönn Waltersdóttur listakonu með fornu japönsku rakuaðferðinni, sem skapar einstakt mynstur og liti. Gripurinn ber áletrunina „Listasafn Árnesinga, Menningarverðlaun Hveragerðis 2024, Menningarstólpi samfélagsins.“

Hrönn segir Menningarstólpann tákna burðarás samfélagsins, líf og sál lista og menningar. Hún segir innblásturinn hafa komið frá mikilvægi listasafnsins og þeirra frábæru lista- og menningarverka sem þar hafa verið unnin. „Hér er minn Menningarstólpi. Gamla aðferðin sem notuð er í verkið getur minnt okkur á hvað listir og menning hafa skipt okkar mannheim miklu máli frá örófi alda, blái liturinn er tákn trausts og súlan vísar á þann stað sem hún stendur á eða er miðpunktinn,“ segir Hrönn um Menningarstólpann.

Nýjar fréttir