Umhverfisverðlaun Rangárþings eystra 2017 voru afhent á Kjötsúpuhátíðinni um liðna helgi. Veitt voru verðlaun í þremur flokkum en það er umhverfis- og náttúruverndarnefnd sveitarfélagsins sem stendur fyrir valinu.
Snyrtilegasti garður sveitarfélagsins var valinn garðurinn við Stóra Moshvol. Þar hafa þau hjónin Ágúst Ólafsson og Sigríður Guðmundsdóttir ræktað garðinn sinn af stakri prýði síðustu áratugi. Snyrtilegasta býlið var valið Ásólfsskáli en þar eru ábúendur annars vegar Katrín Birna Viðarsdóttir og Sigurður Grétar Ottósson og hins vegar Viðar Bjarnason og Þorgerður J. Guðmundsdóttir. Allt umhverfi kringum býlið er einstaklega vel hirt og til mikils sóma. Viðar Bjarnason tók einnig við verðlaunum fyrir snyrtilegasta þjónustufyrirtækið í sveitarfélaginu en í ár var Skógasafn fyrir valinu. Búið er að vinna hörðum höndum að breytingum á ásýnd og aðkomu við safnið og safnið vel að verðlaununum komið.