Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun vegna norðanáttar með vindi á bilinu 13-20 m/s. Hvassast verður í vindstrengjum við fjöll og geta hviður orðið snarpar, sérstaklega undir Eyjafjöllum. Vegna þessara aðstæðna er varasamt ferðaveður fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi, auk þess sem lausamunir geta fokið.
Lögreglan á Suðurlandi varar einnig við mjög slæmu veðri næstu daga, allt fram á föstudag. Appelsínugul viðvörun verður í gildi frá kl. 18 í dag, frá Skógum og austur fyrir Höfn, auk hálendisins. Á öðrum stöðum á Suðurlandi verður gul viðvörun í gildi. Lögreglan biðlar til íbúa og ferðalanga að fylgjast vel með veðurspá næstu daga og tryggja lausamuni, svo sem trampólín, til að koma í veg fyrir tjón.
Þeir sem ferðast um svæðið eru beðnir um að fara varlega og fylgjast með nýjustu veðurupplýsingum til að tryggja öryggi sitt og annarra.