Stokkseyringurinn Björgvin Karl Guðmundsson komst í sögubækurnar þann 19. maí sl. þegar hann náði þeim undraverða árangri að komast í ellefta sinn í röð inn á Heimsleikana í CrossFit, en hann er fyrsti einstaklingurinn í sögu CrossFit íþróttarinnar sem hefur tekist að afreka það og verður sömuleiðis eini íslendingurinn sem kemur til með að keppa um heimsmeistaratitil karla eða kvenna í ár.
Björgvin komst fyrst inn á heimsleikana árið 2014 og hefur ótrauður haldið dampi síðan en hann hefur tvisvar komist á verðlaunapall og átta sinnum verið meðal tíu efstu.
„Ó maður, þetta var svo sætt í þetta skiptið. Í byrjun þessa tímabils missti ég vin úr krabbameini. Ég missti æskuvin sem ólst upp í sama bæ og ég. Þessi 11. ferð á leikana er tileinkuð honum því ég mun aldrei gleyma áhrifunum sem hann hafði á mig og fólkið í kringum hann. Bjarki, þetta var fyrir þig,“ skrifaði Björgvin Karl á samfélagsmiðla sína eftir að ljóst var að hann væri á leið á elleftu leikana. Æskuvinurinn sem um ræðir erStokkseyringurinn Bjarki Gylfason sem lést 20. mars sl. eftir hetjulega baráttu við krabbamein, aðeins 35 ára gamall.
Með 384 stigum á undanúrslitamóti Evrópu sem fram fór í Lyon í Frakklandi á dögunum tryggði Björgvin sér sjöunda sætið, þaðan sem tíu efstu keppendurnir komust áfram á heimsleikana. Keppnin hófst ekki vel fyrir Björgvin. Hann var í sextánda sæti eftir fyrstu greinina og færðist aðeins upp í þrettánda sæti eftir tvær greinar. Þrátt fyrir þessa byrjun hélthann áfram að bæta sig og var kominn í tólfta sæti eftir þrjár greinar. Eftir fjórðu greinina var hann kominn í topp tíu og endaði í áttunda sæti fyrir lokagreinina. Í lokagreininni náði hann svo frábærum árangri og endaði í sjöunda sæti, sem fullkomnaði stórkostlega endurkomu hans og gerði Bjarka án efa stoltan.