11.7 C
Selfoss

Bergrós Björnsdóttir mætti á hækjum og fór heim með silfrið

Vinsælast

Selfyssingurinn og CrossFit undrabarnið Bergrós Björnsdóttir vann silfurverðlaun í -71kg flokki kvenna á Heimsmeistaramóti ungmenna í Ólympískum lyftingum í höfuðborg Perú, Lima í síðustu viku. Þetta er í fyrsta sinn sem íslendingur vinnur til verðlauna á Heimsmeistaramóti í Ólympískum lyftingum yfir alla aldursflokka. Hún lyfti samanlagt 198kg og á öll Íslandsmet í sínum aldursflokki.

Samkvæmt Alþjóða lyftingasambandinu átti Bergrós bestu frammistöðu á næstsíðasta degi mótsins. Fyrir sex dögum gat hún ekki gengið eftir að hafa tognað á ökkla í CrossFit keppni í Frakklandi. Hún kom til Lima á hækjum en endaði sem fyrsti íslendingurinn til að vinna á heimsmeistaramóti ungmenna í Ólympískum lyftingum, og var hársbreidd frá því að verða heimsmeistari.

Bergrós hefur tryggt sér rétt til að keppa á heimsleikunum í CrossFit í aldursflokki 16-17 ára, eftir síðustu undankeppni fyrir heimsleikana sem fram fór í Frakklandi, þar sem hún var yngst keppenda. Heimsleikarnir fara fram í Bandaríkjunum í lok ágúst og verða það hennar þriðju heimsleikar í röð, sem enginn annar íslenskur unglingur hefur afrekað.

Vildi nýta tækifærið

„Síðasta sunnudag gat ég ekki gengið. Ég kom hingað vegna þess að þetta er síðasta árið mitt sem unglingur. Ég vildi nýta tækifærið því ég hélt að ég gæti komist á verðlaunapall. Eftir meiðslin bjóst ég ekki við að vera tilbúin. Það er nánast kraftaverk að ég hafi keppt. Lyftingar eru sterka hliðin mín í CrossFit, svo ég einbeiti mér ekki mikið að þeim á æfingum, varla neitt. Ég vinn heldur í öðrum sviðum. Fyrir þessa keppni æfði ég aðeins meira til að undirbúa mig, en ekkert klikkað,“ sagði Bergrós í viðtali við Alþjóða lyftingasambandið.

„Satt best að segja líkar mér betur við CrossFit, það er meira spennandi og meira að gerast í þriggja daga keppni. CrossFit á hjartað mitt. Lyftingar, æ, þær eru svolítið leiðinlegar,“ bætti Bergrós hlæjandi við.

„Bergrós vakti svo sannarlega athygli með frammistöðu sinni, það var hörkuspenna á áhorfendabekkjum þegar hún átti loka lyftuna sem ákvað hver yrði heimsmeistari. Ökklinn var klárlega að stríða henni þegar hún missti jafnvægið, en það er kraftaverk að hún hafi getað keppt,“ sagði Berglind Hafsteinsdóttir, móðir Bergrósar, í samtali við Dagskrána.

Tuttugu keppendur voru með Bergrós í A-hóp í -71kg kvennaflokki og hún var með eitt hæsta „entry total“ á mótinu. „Entry Total“ þýðir að keppandi þarf að byrja jafnhendinguna ekki lægra en 20kg frá entry total. T.d. ef keppandi snarar best 80kg þá mun hann þurfa að byrja jafnhendinguna á 100kg. Þetta er gert til að raða keppendum eftir getu í A og B hópa, og ef þarf, C og D.

Bergrós hóf keppni í snörun á 85kg og fór síðan í 88kg, sem kom henni í fjórða sætið og var 1kg bæting á Íslandsmetinu. Í loka tilrauninni fór hún í 91kg sem hefði tryggt henni gull en náði ekki að klára lyftuna. Í jafnhendingu opnaði hún á 110kg, sem var 10kg betra en hún hafði áður gert og 4kg bæting á Íslandsmetinu. Við það fór hún upp í annað sætið og þriðja sætið í jafnhendingu. Hún reyndi síðan 114kg til að komast í fyrsta sætið, en náði ekki að klára lyftuna. Að lokum keppti hún við Sarah Ochoa frá Venesúela, sem var í forystu, í 115kg. Þegar Sarah missti lyftuna fékk Bergrós tækifæri til að vinna gullið, en missti jafnvægið í lokalyftunni og náði því ekki.

Nýjar fréttir