„Þær vörulínur sem við erum með frá íslenskum hönnuðum eru sífellt að verða stærri og fjölbreyttari um leið og þær njóta vaxandi vinsælda. Þess vegna viljum við gera þeim hærra undir höfði enda farið að þrengjast um okkur hér á Austuveginum. Við teljum að íslenska hönnunin muni fara einkar vel í nýja miðbænum og list vel á Egilssonarhúsið.”
Þetta segir Erla Gísladóttir sem um tíu ára skeið hefur rekið verslunina Motivo ásamt dóttur sinni, Ástu Björg Kristinsdóttir, að Austurvegi 9 á Selfossi.
Motivo ehf. hönnun, tíska og gjafavara hefur gert samning við Sigtún ehf. um leigu á 125 fermetra verslunarhúsnæði í Egilssonarhúsinu sem rísa mun á miðbæjarreitnum við annað torgið og aðalgötuna. Húsið verður tilbúið á sumri komanda gangi áætlanir eftir.
Egilssonarhúsið var reisulegt hús sem stóð á Hamarskotsmölinni í Hafnarfirði, ekki langt frá þeim stað þar sem veitingahúsið Fjaran og Víkingaþorpið eru nú. Þar rak Þorsteinn Egilsson umsvifamikla verslun á síðustu áratugum 19. aldar.
Verslunin Motivo er Sunnlendingum að góðu kunn en þar hefur eins og kunnugt er verið verslað með fjölbreytt úrval af gjafa- og hönnunarvöru, tískufatnað fyrir konur og einnig skartgripi.
„Við viljum fá tækifæri til þess að þróa og sérhæfa okkur á nýjum stað en munum að sjálfsögðu halda okkar striki áfram á Austurveginum. Í Egilssonarhúsinu er ætlunin að vörur frá hönnuðum eins og Sveinbjörgu, Tulipop, Heklu Íslandi og IHANNA HOME fái að njóta sín. Við erum þarna meðal annars að tala um rúmföt, púða og aðrar textíl vörur. Einnig munum við bjóða uppá spennandi ný merki sem við höfum ekki getað tekið inn fyrr.,” segir Ásta Björg.
Erla bendir á að Motivo hafi hingað til ekki sérstaklega miðað verslunina við ferðafólk en á Selfoss komi margt aðkomufólk, bæði innlent og erlent, til þess að upplifa stemninguna og kynna sér hvað sé á boðstólunum í verslunum og veitingahúsum. „Við höfum oft talað um að sinna erlendu ferðafólki betur og til þess gefst nú tækifæri í Egilssonarhúsinu. Íslensk hönnun er þó ekkert síður eftirsótt hjá Íslendingum. Hún verðskuldar því meira pláss þar sem hún getur notið sín betur.”