12.8 C
Selfoss

Hinn eini sanni Dagskrárborgari

Vinsælast

Andri og Árni á Röstí í Mjólkurbúinu á Selfossi eru matgæðingar miklir og hafa sett saman glænýjan pop-up borgara sem hefur hlotið nafnið Dagskrárborgarinn. Dagskrárborgarinn er bbq-piparosta smassborgari með pikkluðum rauðlauk og fleira gúmmelaði, sem verður á boðstólnum á Röstí næstu misserin. Samhliða færa þeir lesendum uppskrift að Röstí frönskukryddinu og þessum ómótstæðilega hamborgara, sem kjörið er að spreyta sig á heima nú þegar grasið er orðið grænt og sólin sífellt hækkandi á lofti. Segjast þeir handvissir um að „smassborgara“ gerðin eigi ekki eftir að vefjast fyrir nokkrum manni, lykilatriði sé að hafa kjötið nógu feitt og að steikja brauðin upp úr nógu mikið af íslensku smjöri.

Dagskrárborgarinn

1x brioche hamborgarabrauð
Vel af smjöri
120g af amk 30% feitu nautahakki
Olía
2 sneiðar cheddarostur
Ferskt salat
Tómatar
20g Rifinn piparostur
Bbq sósa
Pikklaður rauðlaukur
Röstí Ranch Sósan
Salt og pipar

Byrjað er á að móta tvær 60g kúlur úr hakkinu.
Því næst er olía hituð á pönnu, kúlurnar settar á pönnuna og flattar út með spaða.
Kjötið er steikt á hvorri hlið og kryddað með salti og pipar.
Þegar búið er að snúa, er cheddar- og piparostur settur á kjötið, þegar osturinn er bráðnaður er kjötinu raðað á brauðin sem steikt eru á pönnu upp úr ríkulegu magni af smjöri.

Á brauðið raðast áleggin svo:

Ranch sósa
Salat
Tómatur
Kjöt og ostar
Pikklaður rauðlaukur
BBQ sósa yfir herlegheitin

Röstí Ranch sósan

2.5 dl Majónes
1.5 dl Súrmjólk
1/2 tsk Eplaedik
Sítrónubörkur af tæplega hálfri sítrónu
Dass af:
Þurrkuðu dilli
Salti
og svörtum pipar

Öllu blandað saman í skál.

Pikklaður rauðlaukur

2 stk rauðlaukur
150 ml vatn
150g sykur
150ml eplaedik

Edik, sykur og vatn sett í pott og hitað að suðu.
Rauðlaukur skrældur og skorinn í þunnar sneiðar.
Laukurinn er settur ofan í sjóðandi vatn í 70 sekúndur, snöggkældur, vökvinn sigtaður frá, laukurinn settur í krukku og edikblöndunni hellt yfir. Sett í kæli í 12 klst.

Röstí franskar

Kryddblandan sem einkennir franskarnar á Röstí opinberast hér með og mælum við eindregið með því að lesendur útbúi meira en minna af henni til framtíðarnota.

Franskar kartöflur að eigin vali, djúpsteiktar.

Röstí Frönsku krydd

Salt: 3 msk
Reykt paprika: 1.5 msk
Sinnepsduft: 1.5 tsk
1,5 tsk Svartur pipar
1 tsk Laukduft
0.5 tsk Hvítlauksduft
Cayenne pipar á hnífsoddi

Öllum kryddum blandað saman, frönskunum velt uppúr blöndunni og loks toppaðar með hvítlauksolíu, graslauk og rifnum sítrónuberki. Afgangs kryddblandan sett í box og geymd í kæli.

Nýjar fréttir