Þær Guðbjört Einarsdóttir, gjarnan kölluð Birta og Ragnheiður Kristín Björnsdóttir hafa báðar stundað nám í Dáleiðslu við Dáleiðsluskóla Íslands og bjóða Sunnlendingum og fleirum upp á meðferð sem kallast hugræn endurforritun. Í tilefni Dáleiðsludagsins þann 11. maí verður opið hús í sal Krabbameinsfélags Árnessýslu á Selfossi þar sem öllum er velkomið að koma, spjalla, fá sér kaffisopa og forvitnast um hvernig störf dáleiðara fara fram, auk þess að boðið verður upp á hópdáleiðslu.
Ragnheiður ólst upp í Hveragerði og flutti á Selfoss árið 1982, þá 18 ára gömul þar sem hún settist að með Elís sem síðar varð eiginmaður hennar og eiga þau saman þrjú börn og þrjú barnabörn. Ragnheiður er hjúkrunarfræðingur og fjölskyldufræðingur að mennt og hefur sérhæft sig í parameðferð dr. Susan M. Johnson og lokið tveimur gráðum í áfallafræðum TRM og er með viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu á heilbrigðissviði og í heilsugæsluhjúkrun ásamt fjölda námskeiða og í dag er hún í hlutastarfi við Geðheilsuteymi HSU ásamt því að reka meðferðarstofuna Sjálfsmildi ásamt kollega sem einnig er klínískur dáleiðari. Birta er fædd og uppalin austur á Fljótsdalshéraði, hefur búið þar lengst af og rak þar verslun í 30 ár. Hún lærði úr- og silfursmíði og vann við það í verslun sinni. Fyrir 12 árum þótti henni tími til kominn til að breyta til, seldi verslunina og lærði höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun, Craniosacral Therapy.
„Mér þótti mjög áhugavert hvernig höfuðbeina og spjaldhryggsjöfnun vinnur í fólki á heildrænan hátt og þá fór ég sjálf í fyrrilífs dáleiðslu sem var eitthvað alveg nýtt fyirir mér og opnaði áhuga minn á Dáleiðslunni sem meðferðarformi. Ég fór í kjölfarið í Dáleiðsluskóla Íslands og lærði dáleiðslu og í beinu frammhaldi Hugræna endurforritun sem er stórkostlegt meðferðarform til að hjálpa fólki sem hefur allskonar vanlíðan, kvíða og áföll sem það hefur gengið í gegnum í lífi sínu, en það er hægt að vinna með nánast allt í dáleiðslunni.“ segir Birta
„Dýpsta slökun sem þú kemst í“
„Það að aðstoða fólk til sjálfsbjargar og hjálpa því að virkja bjargráðin sín og sýna sér sjálfsmildi er mér ofarlega í huga. Dáleiðslan fannst mér áhugavert meðferðarform sem hefur sannað gildi sitt og er góð viðbót við samtalsmeðferðina. Ég hef þá trú að við sem manneskjur getum svo miklu meira sjálf en við gerum okkur oft grein fyrir til þess að bæta líðan og búum jafnvel yfir mun meiri hæfni og bjargráðum en við nýtum okkur. Oft vantar okkur verkfærin og dáleiðslan er eitt af þessum dásamlegu verkfærum sem getur bætt líðan. Dáleiðsla er einhver dýpsta slökun sem þú kemst í hún sefar og róar og hjálpar m.a. til við úrvinnslu erfiðra upplifana og áfalla. Dáleiðslumeðferð er m.a. þekkt fyrir að hjálpa fólki að hætta ð reykja að losna við fóbíur, kvíða, losna við sykurlöngun, dregur úr eða losa fólk við íþyngjandi tilfinningar tengt minningum, draga úr sjálfsgagnrýni svo eitthvað sé nefnt,“ bætir Ragnheiður við.
„Ekkert í líkingu við sviðsdáleiðslu“
„Dáleiðsla er alltaf sjálfsdáleiðsla og ef fólk er tilbúið að nota hana sem hjálparform til að vinna með sig og losa sig við vanlíðan þá dáleiðist þú og ferð inn í innri vinnu í huganum. Það er þekkt og vitað að áföll og óþægilegir atburðir sem við lendum í, festast í huganum og eru sífellt að gera vart við sig þar sem veldur svo stöðugri vanlíðan og kvíða, í dáleiðslunni erum við leiðsögumenn sem leiðbeinum þér til að losa þig við það sem veldur vanlíðan og ótta. Hugræn endurforritun er heilsteipt prógramm sem Ingibergur Þorkellsson skólastjóri Dáleiðsluskóla Íslands hefur sett samið úr öllum helstu og mest notuðu aðferðum dáleiðslunnar í gegnum tíðina,og það gagnast til að vinna með það sem kemur upp í dáleiðslunni á hugræna og tilfinningasviði okkar. Dáleiðsla getur gagnast öllum sem hafa vilja til að vinna með sig og geta slakað á og treyst því að það sé sjálft við stjórnvölinn. Mýtur um að það sé nóg að horfa í augun á okkur og við náum einskonar valdi yfir fólki er bara spaug og þetta er ekkert í líkingu við sviðsdáleiðslu þar sem fólk er fengið til að láta eins og kjánar. Við vinum ekki á þeim nótum,“ segir Birta.
Aðstoð við að tengjast eigin styrk
„Hver kannast ekki við neikvæðar og niðurbrjótandi hugsanir sem koma óboðnar og óvænt upp í hugann? Stundum eru þetta það sem við köllum í dáleiðslunni „afrit“. Stundum hefur foreldri, kennari, samnemendur eða samferðafólk sagt eitthvað við okkur af ónærgætni eða til að meiða t.d. í barnæsku. Þegar svo þessu linnir þá erum við jafnvel farin að trúa því að við séum svona ómöguleg og sjálfsmyndin hefur jafnvel mótast samkvæmt þessum upplýsingum. Ef eitthvað hefur verið sagt nógu oft eða nógu lengi við okkur þá má segja að það geti orðið til afrit af því sem sagt var við okkur og svo heldur ofbeldið áfram þegar þessar neikvæðu raddir fara í gang. Dáleiðarinn aðstoðar dáleiðsluþegann við að komast í djúpa slökun með dáleiðsluinnleiðingu og við það verður greiður aðgangur að undirvitundinni en henni má líkja við skjalahirslu sem hefur vistað allar upplýsingar um viðkomandi frá upphafi. Dáleiðsluþeginn fær aðstoð við að tengjast sínum innri styrk/innsæi. Vinnan felst m.a. í að aðstoða dáleiðsluþegann við að losna við neikvæðar tilfinningar tengdar erfiðum minningum og áföllum. Einnig er unnið með fastar hamlandi tilfinningar sem hafa takmarkað getu einstaklinga til þess að blómstra, unnið með skömmina, þöggunina og áhrif áfalla á líkamann.
Ég vil taka það fram að einstaklingurinn þarf ekki að endurlifa þessar neikvæðu minningar. Hann getur farið beint í að eyða tilfinningunni sem tengist minningunni sem kemur upp. Að lokum eru persónuþættirnir sem hafa skipst á að vera viðkomandi skoðaðir. Við þekkjum öll að eiga okkur mismunandi hliðar að haga okkur mismunandi eftir aðstæðum. Í Hugrænni endurforritun köllum við þessar mismunandi hliðar persónuþætti. Er þá átt við að persónuleikinn sé ofinn mörgum þáttum, eins og kaðall. Sumum persónuþáttanna líður vel en öðrum illa og við hjálpum þeim persónuþáttum sem líður illa að skipta um hlutverk og að líða betur. Stundum búum við yfir þáttum eða eiginleikum sem ættu oftar að vera við stjórnina heldur en þáttur sem er síður til þess fallinn og þá þarf að hjálpa þeim þætti að komast að. Ég veit að fyrir suma hljómar þetta undarlega. Ég er sjálf gagnrýnin að eðlisfari en jafnframt forvitin og fróðleiksfús og þarf að prófa og sannfærast sjálf um að eitthvað virki. Ég verð að segja að ég er bæði glöð og gáttuð á því hversu vel þessi aðferð er að virka,“ segir Ragnheiður að lokum.