11.7 C
Selfoss

 Styrkurinn stökkpallur

Vinsælast

Myndlistarfélag Árnessýslu (MFÁ) hefur verið áberandi í menningarlífi á Suðurlandi síðast liðna fjóra mánuði enda 40 viðburðir að baki á þeim fjórum mánuðum sem liðnir eru af árinu. Hugmyndin að verkefninu „Myndlist 40-4“ kviknaði hjá nýskipaðri stjórn á síðasta ári en henni langaði að stuðla að meiri virkni í félagsstarfinu, vera sýnilegri almenningi og taka virkari þátt í menningarlífi á svæðinu. Til þess að þetta væri gerlegt félagasamtökum með litla veltu þá lá beinast við að sækja um styrk í Uppbyggingarsjóð Suðurlands og því sett fram stórtæk hugmynd og henni hrint í framkvæmd þegar ljóst varð að styrkurinn hefði fengist.

Nægt fjármagn má sín þó lítils ef ekki er fólk til að framkvæma gjörninginn og eins er nauðsynlegt að hafa aðstöðu til að græja og gera. Sveitarfélagið Árborg stendur rausnarlega við bakið á MFÁ og lánar félaginu aðstöðu í Sandvíkursetri þar sem það er með vinnustofur og gallerí. Í staðin tekur félagið virkan þátt í menningarviðburðum sem sveitarfélagið stendur fyrir. Án þessarar aðstöðu væri ekki gerlegt að standa fyrir viðburðum og svo ríkulegu menningarstarfi sem félagið hefur sýnt og víst að það gæti gert enn betur ef fleiri sveitarfélög í sýslunni myndu bjóða upp á aðstöðu líka.

Sandvíkursetur var notuð til hins ýtrasta en þar voru „opnar vinnustofur“ tvisvar í viku alla fjóra mánuðina, eitt „örnámskeið“ í hverjum mánuði og ein af fimm myndlistarsýningum viðburðaraðarinnar var haldin þar. Hinar fjórar myndlistarsýningarnar voru settar upp á veitingastaðnum Mika í Reykholti, heitu pottunum í Sundhöll Selfoss, Skyrgerðinni í Hveragerði og endað á úti myndlistarsýningu í Tryggvagarði á Selfossi í blíðskaparveðri á Sumardaginn fyrsta. Allt voru þetta gjaldfrjálsir viðburðir og nýtti fjöldi fólks sér tækifærið og blandaði geði við listagyðjuna. Útisýningin, ásamt opnu húsi hjá félaginu og listasmiðju fyrir börnin, var lokapunktur Myndlistar 40-4 og sýndi fjöldi gesta og gleði þeirra hversu miklu virkt félagsstarf getur skilað til samfélagsins.

Félagar í stjórn og sýningarnefnd MFÁ eru glöð, stolt og þreytt að þessari törn lokinni en nú þegar eru kviknaðar hugmyndir að áframhaldandi ríkulegu félagsstarfi á komandi vetri og aðeins spurning hvort fleiri sveitarfélög stökkvi á vagninn og fái í kaupbæti ríkulega viðbót við sitt menningarstarf!

Stjórn og sýningarnefnd MFÁ

Nýjar fréttir