Þegar kemur að 1. maí kemur upp í hugann hverjar eru helstu félagslegu áskoranir sem launafólk stendur frammi fyrir. Verkalýðshreyfingin hefur í gegnum tíðina barist fyrir velferð félagsmanna og er það stöðug og lifandi barátta. Við þurfum alltaf að huga að afkomu okkar fólks og var markmið kjarasamninga sem gerðir voru á almennum markaði að ná hér niður verðbólgu og vöxtum, endurreisa tilfærslukerfi heimila og vinnandi fólks. Á móti verða vægast sagt mjög hóflegar launahækkanir. Það er alltaf á ábyrgð launafólks að ná hér niður verðbólgu þó það séu ýmis önnur áhrif sem hefur áhrif á verðbólgu og hefur ekkert með launafólk að gera. Þetta er gömul saga og ný en vonandi gengur þetta eftir og í framhald komi stöðugleiki sem kemur öllum til góða.
Launamunur kynjanna er og hefur verið áskorun sem við öll þekkjum og virðist vera ákveðin hefð fyrir því og fast í okkar menningu því miður. Í starfsgreinum þar sem konur eru í meirihluta eins heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu og menntagreinum eru laun almennt lægri samanborið við starfsgreinar þar sem karlar eru í meirihluta. Vorið 2020 í tengslum við kjarasamninga aðildarfélaga BSRB, ríkis og sveitarfélaga lýsti ríkisstjórnin því yfir sett yrði af stað vinna til þess að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og að leiðrétta þyrfti kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta.
Í september 2021 skipaði Katrín Jakobsdóttir (þá forsætisráðherra) aðgerðarhóp með öllum aðilum vinnumarkaðarins um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Markmiðið var að koma á fót þróunarverkefni um virðismat starfa til að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og eru vanmetnir. Að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum. Hópurinn hefur skilað af sér og fyrir liggur upplegg að virðismatskerfi í þágu launajafnréttis unnið af Jafnlaunastofu.
Við gerð kjarasamninga 2024 var hluti af aðgerðum/loforðum stjórnvalda að unnið verði að virðismatskerfi sem byggir á tillögum aðgerðarhóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Gert verði ráð fyrir að innleiðing taki allt að þrjú ár og nýtt kerfi liggi fyrir eigi síðar en í árslok 2026. Minnsti launamunur hjá okkar fólki eins og staðan er núna er hjá starfsmönnum sveitarfélaganna þar sem notað er starfsmatskerfi. Þar er samt launamunur og við viljum útrýma launamun almennt. Við höfum verk að vinna, tökum höndum saman og hættum ekki fyrr en launamun kynjanna verður útrýmt. Við erum bjartsýn á að ný ríkisstjórn sýni þessu verkefni jafnmikla alúð og fráfarandi forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir hefur gert.
Nýr veruleiki hér hjá okkur er mansal sem virðist vera að ryðja sér til rúms í okkar samfélagi. Mansal er þegar einstaklingur misnotar eða hagnýtir aðra manneskju á einhvern hátt til að græða peninga eða fá önnur hlunnindi. Þetta er ein alvarlegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis. Stéttarfélögin eru að sjá ýmis konar sviðsmyndir, launafólk fær ekki ráðningarsamninga, vinnur 220 klukkustundir eða meira og fær greidd dagvinnulaun. Vinnutíminn er 7 daga vikunnar og aldrei frí. Launafólk sem leigir húsnæði af atvinnurekanda greiðir himinháa leigu og ef ráðningarsamband rofnar þá er fólk sett út á götu. Þetta er ekki algilt svo það sé sagt þá eru flestir atvinnurekendur mjög til sóma en við erum að sjá fleiri og fleiri dæmi um alvarleg brot á vinnumarkaði. Það sem kemur á óvart í þessu er þegar aðilar eru að útvista at, eru að ráða verktaka og kynna sér ekki hvernig málum er háttað varandi starfmannahald. Hvort sem það er á almennum markaði, ríki eða sveitarfélög er bara verið að hugsa um rekstrarlega hlið ekki mannlega. Þegar vísbendingar verða um mansal verða stéttarfélögin vægast sagt vanmáttug og eru úrræðin mjög veik. Aðferðir þeirra atvinnurekenda sem stunda mansal eru þekktar. Þeir sem stunda mansal treysta á vanmátt okkar og vanþekkingu. Það er mikilvægt að þær stofnanir sem koma að þessum málaflokki byggi upp traust til fórnarlamba. Ef þú þekkir einkenni og aðferðir við mansal, þá eykur þú líkurnar á að uppræta það.
Við berum öll ábyrgð, látum þetta ekki líðast í okkar samfélagi.
Það þarf þjóðfélagslega sátt og samstöðu þannig að allir geta lifað með reisn á mannsæmandi launum. Við þurfum að hugsa upp á nýtt og forgangsraða.
Við fögnum alþjóðlegum baráttudegi okkar í dag, hugsum til framtíðar og sofnum ekki á verðinum.
Hvernig þjóðfélag viljum við sjá?
Halldóra Sigr. Sveinsdóttir,
formaður Bárunnar, stéttarfélags