-6.9 C
Selfoss

Grillaður saltfiskur og Hvítsúkkulaðimús með jarðarberjum og lime

Vinsælast

Elsa Þorgilsdóttir er matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil þakka frænku minni Júlíu fyrir að skora á mig, ég hélt ég væri sloppin þar sem ég lánaði henni uppskrift í síðustu viku en nei það var nú ekki svo gott.

Mér fannst erfitt að ákveða hvaða uppskrift ég ætti að velja en þar sem styttist í sumarið ákvað ég að gefa uppskrift af grilluðum saltfiski og uppskrift af uppáhalds eftirrétti fjölskyldunnar sem er líka svo einstaklega einfalt að gera.

Grillaður saltfiskur

6-8 bitar saltfiskur ( best að nota hnakkabita og fiskurinn þarf að vera vel útvatnaður)
2 dl ólífuolía (sem ætluð er til steikingar)
litlir hvítlaukar eða 6-8 hvítlauksrif
½ búnt fersk steinselja

Hvítlaukurinn maukaður/saxaður og steinseljan söxuð, þessu er síðan blandað saman við olíuna. Saltfiskurinn þerraður aðeins og settur á fat. Hvítlauksolían er síðan sett yfir fiskbitana, gott að láta þetta standa í 30 mín. Grillið hitað vel og gott að pennsla það með smá olíu svo fiskurinn festist ekki við. Fiskurinn settur á vel heitt grill með holdið niður fyrst og svo snúið á roðhliðina, gott að snúa fiskinum sem minnst sérstaklega ef hann er laus í sér. Grillað þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Tekur aðeins nokkrar mínútur á hvorri hlið, fer þó eftir þykkt bitanna.

Kartöflur

700 -800 gr kartöflur
Olía, kartöflukrydd og þurrkað rósmarín eða origano
artöflurnar skornar í fjóra báta velt uppúr olíu og kryddi, bakað í ofni í 30-40 mín.

Hvítlaukssósa

1 dós sýrður rjómi
2 dl majónes
2-4 hvítlauksrif
steinselja
salt
hunang

Sýrður rjómi og majónes blandað saman, hvítlauksrif maukuð og hrærð út í ásamt saxaðri steinselju smakkað til með salti og smá hunangi

Gott ferskt salat með fetaosti er líka ómissandi með þessum fiski og svo mæli ég hiklaust með ísköldu hvítvíni.

Hvítsúkkulaðimús með jarðaberjum og lime

Súkkulaðimús

100 gr. hvítt súkkulaði
2 dl rjómi
1 egg

Þeytið rjómann og setið til hliðar,  bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og setið til hliðar.
Þeytið eggið og hrærið egginu og bráðnu súkkulaðinu saman, varist að hafa súkkulaðið of heitt.

Blandið rjómanum saman við með sleikju

Setjið músina í fjórar skálar og geymið í ísskáp í að minnsta kosti fjórar klukkustundir. Hægt er að gera músina daginn áður og geyma í ísskáp yfir nótt.

Sósan

1 box jarðaber
2 msk. Akasíuhunang
1 lime

Rífið börkin af lime-ávextinum, pressið safann úr. Blandið saman hunangi, lime-safa og lime-berki.

Skerið jarðarberin í bita og blandið öllu saman, marinerið í 4 klukkustundir.

Til að klára réttinn eru skálarnar teknar úr ísskápnum. Jarðarberjabitunum er dreift á skálarnar og um matskeið af safanum sett í hverja skál.

Ég ætla að skora á vinkonu mína Ragnheiði Maríu Hannesdóttur að gefa uppskrift því ég veit að hún lumar á ýmsu góðgæti.

Nýjar fréttir