Síðustu vikur höfum við unnið að umgjörð utan um verkefnið atvinnubrú sem fór formlega í loftið á heimasíðunni okkar í síðustu viku.
Verkefnið atvinnubrú snýr að því að efla og styrkja háskólasamfélagið á Suðurlandi með því að skapa vettvang fyrir samstarf milli háskólanemenda, atvinnurekenda og samfélagsins á Suðurlandi. Við höfum átt gott samtal við fyrirtæki og stofnanir á Suðurlandi og óskum eftir fleiri þátttakendum sem sjá hag sinn í því að taka þátt. Verkefnið er áhersluverkefni Sóknaráætlunar Suðurlands 2024.
Við höfum síðustu vikur unnið að því að skapa tenglsanet sem kemur til með að nýtast sem gagnagrunnur fyrir þátttakendur í verkefninu. Sértu nemandi í leit að rannsóknarverkefni eða starfsnámi getum við hjálpað þér að tengjast réttum aðila í sunnlensku atvinnulífi. Sama má segja um fyrirtæki og stofnanir. Sértu í leit að nemanda sem gæti sinnt starfsnámi, sumarnámi eða rannsóknum getum við aðstoðað við að tengja þig við háskólanema sem yfirfærir nýja þekkingu inn í atvinnulífið.
Við leggjum ríka áherslu á samstarf og valdeflingu en ætlunin er að veita greiðari aðgang að framtíðar mannauði fyrir sunnlenskt atvinnulíf og skapa vettvang fyrir háskólanemendur til þess að efla starfshæfni samhliða og/eða eftir háskólanám. Við sjáum mörg tækifæri hér á Suðurlandi og höfum fengið til liðs við okkur háskólasamfélagið sem sér mikla þörf fyrir vettvang af þessu tagi, sérstaklega fyrir háskólanemendur af landsbyggðinni.
Við hvetjum ykkur til þess að kynna ykkur atvinnubrú betur með því að smella hér. Einnig er hægt að hafa beint samand við Helgu Kristínu Sæbjörnsdóttur verkefnastjóra með því að senda póst á helga@hfsu.is.
Háskólafélag Suðurlands