Samningur var undirritaður á milli Ásæls, áhugafélags um uppbyggingu sæluhúsa á Hrunamannaafrétti og Hrunamannahrepps á aðalfundi félagsins sem haldinn var á 20 ára afmælisdegi félagsins, þann 18. mars sl.
Tilgangur samningsins er að viðhaldið verði þeim menningararfi sem felst í gömlum sæluhúsum á afrétti Hrunamanna og að viðurkennt sé mikilvægi sjálfboðinna starfa eins og þeirra sem félagar í Ásæl hafa sinnt með eftirtektarverðum hætti við uppbyggingu og viðhald sæluhúsa á afréttinum síðustu tvo áratugina
Félagar í Ásæl hafa byggt upp og endurnýjað að hluta eða að öllu leyti gömul sæluhús í Leppistungum, í Svínárnesi, í Fosslæk og í Mikluöldubotnum. Fosslækur hefur verið helsta stolt félagsins og snýr samningurinn ekki síst að viðhaldi þess skála sem og viðhaldi á gömlum torfhúsum í Svínárnesi og Leppistungum ásamt viðhaldi á nýju húsi í Mikluöldubotnum.
Samningurinn er í gildi í þrjú ár og á samningstímanum skuldbinda félagar í Ásæl sig til að lagfæra torf á skálunum, bera á timburverk, klára framkvæmdir í Mikluöldubotnum, halda árlega opinn viðburð tengdum starfi félagsins og sjá til þess að umhverfi skálanna sé til sóma. Í staðinn greiðir Hrunamannahreppur félaginu kr. 1.235.000,- á þeim þremur árum sem samningurinn gildir.
Á fundinum færði Hrunamannahreppur félaginu kamínu í 20 ára afmælisgjöf en vonir standa til að kamínan muni nýtast félagsmönnum sem og öðrum gestum í einum af skálunum á afréttinum.