-5.5 C
Selfoss

Ef garðálfar gætu talað

Vinsælast

Ljósmynda- og farandsýningin „Ef garðálfar gætu talað“ er nýopnuð í Byggðasafni Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka.  Þar gefst gestum tækifæri til að horfa inn í veröld þeirra sem byggðu sér sælureit í hjólhýsabyggð á Laugarvatni. Ljósmyndararnir Þórdís Erla Ágústsdóttir og Sigríður Rut Marrow mynduðu þetta sérstæða samfélag í þrjú sumur, á árunum 2019 – 2021. Frá þjóðveginum sást aðeins þyrping hjólhýsa á grónu svæði en þegar inn var komið blasti við margbrotið samfélag; allskyns hýsi, garðpallar, blóm og íbúarnir sjálfir að ógleymdum garðálfunum. Litríkar myndir sýna samveru, sumar og sælu en  garðálfar hafa líka komið sér vel fyrir í hlýlegri borðstofu Hússins.  Sýningartextar eru eftir rithöfundinn Guðrúnu Evu Mínervudóttur. „Ef garðálfar gætu talað“  er farandsýning frá Þjóðminjasafni Íslands en þar var sýningin haldin á nýliðnum vetri.

Þórdís Erla Ágústsdóttir og Sigríður Rut Marrow. Ljósmynd úr einkaeigu.

Sigríður og Þórdís hafa í sínum verkum gjarnan lagt áherslu á að mynda jaðarmenningu og hverfandi samfélög. Í dag er hjólhýsabyggðin á Laugarvatni aflögð og heimildargildi myndaseríunnar dýrmætt.

Sýningin er opin líkt og safnið alla daga frá 23. mars – 1. apríl kl. 13 – 17 og svo allar helgar í apríl á sama tíma. Sumaropnun safnsins hefst í maí með lengri opnunartíma og gestir geta heimsótt sýninguna fram í maílok.

Byggðasafn Árnesinga

Nýjar fréttir