Fyrr í dag skrifuðu fulltrúar Sveitarfélagsins Ölfuss og forsvarsmenn Verkeininingar ehf. undir samning um byggingu nýs 4 til 6 deilda leikskóla sem byggður verður við Bárugötu 22 í Þorlákshöfn. Um er að ræða 880 m2 fullbúinn leikskóla og er heildarsamningsfjárhæðin 595 milljónir eða rétt um 676 þúsund pr. fermeter. Tilboð Verkeingar var það lægsta af 8 tilboðum sem bárust, um 88% af kostnaðaráætlun.
Áætlað er að með tilkomu hins nýja leikskóla verði til allt að 80 ný leikskólarými í Þorlákshöfn. Í dag er ekki biðlisti eftir plássum en hinum nýja leikskóla er ekki hvað síst ætlað að mæta þörfum vegna vaxandi byggðar og aukinnar þjónustu.
Í tilkynningu frá bæjarstjórn segir að framkvæmdir við hinn nýja leikskóla eigi að hefjast strax og verði að fullu lokið eigi síðar en 1. sept. 2025.