-6.6 C
Selfoss

Frá sunnlenskum sveitabæjum á fjalir Þjóðleikhússins

Vinsælast

Söngleikjadeild söngskólans í Reykjavík var stofnuð í tilefni af 50 ára starfsafmæli skólans haustið 2023. Af sautján nemendum deldarinnar voru fjórir Sunnlendingar sem hófu nám við skólann á fyrsta starfsári hennar, þau Gísella Hannesdóttir og Svala Norðdahl úr Rangárvallasýslu, Hanna Tara Björnsdóttir úr Ölfusi og Óskar Snorri Óskarsson úr Hrunamannahreppi, en auk skólans eiga þau það öll sameiginlegt að vera frá sunnlenskum sveitabæjum. Dagskráin náði tali af þessum upprennandi „söngleikurum“ sem vinna nú hörðum höndum að því að setja upp söngleikinn Bugsy Malone, sem sýndur verður í Þjóðleikhúsinu í apríl, og fékk að spyrja þau svolítið um námið og þeirra upplifun af því, en öll eru þau á einu máli um að þau mæli hiklaust með hinni nýju söngleikjadeild fyrir öll sem vilji læra að syngja og hafi áhuga á söngleikjum.

Hvernig stóð til að þú sóttir um í söngleikjanámi?

Gísella: Mig langaði að halda áfram með söngnámið mitt og þegar pabbi benti mér á auglýsinguna um nýja söngleikjadeild í Söngskólanum í Reykjavík vissi ég strax að þetta væri eitthvað fyrir mig. Mér fannst líka skemmtilegt að feta í fótspor foreldra minna en þau stunduðu bæði nám við Söngskólann í Reykjavík á sínum tíma.
Hanna: Ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á söngleikjum. Amma mín var mikill söngleikja aðdáandi og hvatti mig og frændsystkinin mikið í söngnámi og leiklist. Þannig þegar að ég sá að Söngskólinn í Reykjavík var að stofna nýja deild þá varð ég að sækja um.
Svala: Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á leik og tónlist, þetta var því bara fullkomin uppskrift af námi fyrir mig.
Óskar: Gísella, vinkona mín, mælti með þessum skóla og þar sem ég hef mikinn á áhuga á söng og leik ákvað ég að kýla á þetta.

Gísella Hannesdóttir. Ljósmynd: Aðsend.

Hvað finnst þér skemmtilegast við námið? Er þetta eins og þú bjóst við?

Gísella: Ég passaði að gera mér ekki of miklar væntingar þegar ég byrjaði í söngleikjadeild en námið er enn skemmtilegra en ég hafði þorað að vona. Ég hlakka til að mæta í hvern einasta tíma og það er svo gaman að vera umkringd þessum hæfileikabúntum á hverjum degi. Það sem mér finnst skemmtilegast af öllu er að standa fyrir framan fullan sal af fólki og syngja, leika og dansa með vinum mínum.
Hanna: Allir hóptímarnir. Mér finnst svo ótrúlega gaman að vera með öllum krökkunum, við erum svo góður hópur og náum svo vel saman. Þetta er mikið skemmtilegra en ég bjóst við. Ég hef aldrei verið í svona tónlistarnámi áður þar sem að það er svona deild.
Svala: Það er algerlega skemmtilegast að setja upp þennan stóra söngleik, en annars hefur hvert skref í þessu námi verið ekkert nema ævintýri!
Óskar: Fólkið og skólaandinn. Ég veit ekki alveg hverju ég bjóst við en þetta er alveg frábært!

Hvaða hlutverk ferð þú með í Bugsy Malone?

Gísella: Ég leik nokkur hlutverk en af þeim er lögregluforinginn O’Dreary svolítið í uppáhaldi, hann er svo fyndinn.
Hanna: Ég leik þrjú hlutverk; Hnúa, Breið og Velmu. Hnúi er svona stærstur af þeim. Hann er þrjótur Samma feita og hans hægri hönd.
Svala: Ég fer með hlutverk hinnar merku Talluluh.
Óskar: Bugsy Malone.

Hanna Tara Björnsdóttir. Ljósmynd: Aðsend.

Hvernig er þessi söngleikur samanborinn við aðra sem þú hefur tekið þátt í?

Gísella: Ég myndi segja að þetta væri stærsti og mest „professional“ söngleikur sem ég hef tekið þátt í og það er mjög gaman hvað allir hafa mikinn metnað fyrir þessu. Ferlið hefur hingað til verið mjög skemmtilegt og ég hlakka svo mikið til að fá að sýna!
Hanna: Þeir eru allir svo ólíkir og allir svo skemmtilegir á sinn hátt. Ég hef verið í Leikfélagi Hveragerðis í mörg ár og það er mitt heimasvið og smá stressandi að fara þaðan og yfir í Þjóðleikhúsið, en ótrúlega spennandi líka.
Svala: Þetta er hrikalega djúpur og heimspekilegar söngleikur. Söngleikir eiga það rosalega oft til að gleyma eða eyða ekki miklum tíma í alvarleika heldur leita frekar í glamúr og glens. Þessi sýning nær að fanga sorgina og þungan þrátt fyrir að halda glensi og glamúrnum.
Óskar: Þetta er í fyrsta skiptið sem ég tek þátt í söngleik

Hverjar eru helstu áskorarirnar við það að leika í söngleik?

Gísella: Ég myndi segja að þetta væri stærsti og mest “professional” söngleikur sem ég hef tekið þátt í og það er mjög gaman hvað allir hafa mikinn metnað fyrir þessu. Ferlið hefur hingað til verið mjög skemmtilegt og ég hlakka svo mikið til að fá að sýna!
Hanna: Að muna að gera allt á sama tíma. Stundum er maður að einbeita sér svo mikið að dansinum að maður gleymir að syngja.
Svala: Helstu áskorarnirnar við að leik í söngleik eru hreinlega bara að halda orku í gegnum allt ferlið og svo er alls ekkert auðvelt að syngja, dansa og halda karakter á saman tíma.
Óskar: Stærsta áskorun er að púsla öllu saman, þá söng, dans og leik.

Svala Norðdahl. Ljósmynd: Aðsend.

Ertu með einhver plön eftir söngleikjanámið?

Gísella: Það eina sem ég hef ákveðið er að gera eitthvað sem mér finnst skemmtilegt og tónlistin og leiklistin mun því pottþétt koma við sögu á einhvern hátt.
Hanna: Komast á stóra sviðið!
Svala: Plönin mín eftir þetta nám er hreinlega bara að halda áfram að koma mér á framfæri og stunda bæði leik og söng með trompi, og reyna að gera þetta að atvinnu.
Óskar: Ég er á leiðinni í Listaháskóla Íslands í leikaranámið.

Hver er þinn uppáhalds söngleikur?

Gísella: Mér finnst nánast ómögulegt að velja bara einn uppáhalds en Söngvaseiður og Vesalingarnir hafa lengi verið í uppáhaldi. Svo eru Bugsy Malone og Frost í Þjóðleikhúsinu frábærir söngleikir sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara, en ég er kannski ekki alveg hlutlaus.
Hanna: Erfið spurning, en ég myndi segja að einmitt núna væri það Waitress, Newies og að sjálfsögðu Bugsy Malone
Svala: Minn uppáhalds söngleikur er Jesus christ superstar, en annars finnst mér þessir 80’s söngleikir allir magnaðir.
Óskar: Bugsy Malone, allan daginn!

Óskar Snorri Óskarsson. Ljósmynd: Aðsend.

Áttu einhverjar fyrirmyndir úr bransanum?

Gísella: Ein af mínum fyrstu leikhúsminningum er þegar ég fór á Söngvaseið í Borgarleikhúsinu. Þar var Vala Guðna í aðalhlutverki svo hún hefur eiginlega verið Idolið mitt síðan ég var lítil. Núna er hún söngkennarinn minn og ég lít ennþá mikið upp til hennar.
Hanna: Þegar maður er í kringum svo hæfileikaríkt fólk á hverjum degi að ekki segja þau, þannig ég segi allar yndislegu sálirnar sem eru í og vinna í Bugsy Malone.
Svala: Mín helsta fyrirmynd i bransanum er auðvitað minn heittelskaði kennari Vala Guðna, en annars er Sierra Bogges algerlega mögnuð.
Óskar: Siggi Sigurjóns er minn allra uppháhalds.

Að lokum: Ef þú gætir ferðast aftur í tímann, hvaða söngleik mundir þú vilja taka þátt í?

Gísella: Þegar ég var lítil var einn af mínum stærstu draumum að leika Regínu í samnefndum söngleik frá árinu 2001 eða Maríu úr Söngvaseið en ég held reyndar að ég hefði gaman af að taka þátt í nánast hvaða söngleik sem er.
Hanna: Ég held að það væri alveg æðislegt að vera í frumsýningunni af einhverri stórsýningu eins og Phantom of the Opera eða Sound of Music.
Svala: Ég myndi hrikalega mikið vilja taka þátt í Vesalingunum þegar þeir voru settir upp hér á Íslandi, þar sem þeir kveiktu áhugann minn hvað mest á söngleikjum.
Óskar: Ég væri til í að taka þátt í söngleikjum Jóns Múla og Jónasar Árnasonar.

Áhugasömum er bent á að tryggja sér miða í tíma, því uppselt er á tvær af þremur sýningum og einungis örfá sæti laus á þá þriðju. Miðasalan fer fram á Tix.is.

Nýjar fréttir