-10.5 C
Selfoss

Guttagolla

Vinsælast

Uppskrift okkar að þessu sinni er að hnepptri smábarnapeysu. Garnið er Lillemor frá Permin, yndislega mjúk vistvæn merinoull sem er einkar áferðarfalleg og á mjög góðu verði.

Peysan er prjónuð fram og til baka, neðan frá og upp.

Mynstur: Mynstrið samanstendur af 10 umferðum, fyrst 6 umf slétt prjón (prjónað brugðið á röngunni) með lit 1, skiptið yfir í lit 2 og prjónið 1 umf sl, svo 3 umf perluprjón, (1 sl, 1 br út umferðina, í næstu umf er prjónuð slétt l yfir brugna og brugðin l yfir slétta og aftur í þriðju umferð).

Stærðir: 1árs – 2ja – 3ja – 4ra ára.

Efni: Lillemor, litur1: 3-3-3-4 dk, litur 2: 2 dk í öllum stærðum, 60 sm hringprjónar no 3,0 og 3,5, 7-8-8-9 tölur, prjónanælur.

Bolur: Fitjið upp 111-119-126-132 l á prjóna no 3,0 og prjónið brugðning 1 sl, 1 br, athugið að taka alltaf fyrstu lykkjuna óprjónaða af prjóninum, þannig myndast fallegur kantur. Prjónið alls 8-8-8-10 umf. Skiptið yfir á prjóna no 3,5 og aukið í fyrstu umferð út um  11-11-12-14 l (samtals 122-130-138-146 l á prjóninum). Prjónið nú skv. mynsturleiðbeiningum þar til komnir eru 6-7-8-9 perluprjónsbekkir. Prjónið 3 umf sléttar með lit 1. Í næstu umferð merkjum við fyrir ermar með því að prjóna 32-34-36-38 l, setja 6 síðustu á prjónanælu, prjóna 64-68-72-76 l, setja 6 síðustu á prjónanælu, prjóna 26-28-30-32 l. Hvílið nú bolinn og prjónið ermar.

Ermar: Athugið að vel má prjóna ermarnar í hring ef vill. Fitjið upp 34-36-38-40 l á prjón no 3,0. Prjónið brugðning eins og á bolnum. Skiptið yfir á prjón no 3,5 og aukið í fyrstu umferð um 4-4-4-6 l jafnt yfir umferðina. Prjónið samkvæmt mynstri en aukið um leið í 6 hverri umferð um 2 l (eina eftir fyrstu l umferðar og aðra á undan síðustu l umferðar). Aukið út þar til alls eru komnar 52-56-60-64 l á prjóninn. Prjónið áfram þar til komnir eru 7-8-9-10 preluprjónsbekkir og 4 umferðir með lit 1 Setjið þá 3 fyrstu og 3 síðustu l umferðar á prjónanælu, hvílið ermina og prjónið aðra ermi eins.

Berustykki: Prjónið bol fram að prjónanælu, prjónið fyrri ermi við, prjónið bakstykki að næstu nælu, prjónið seinni ermi við og prjónið út umferðina (alls 202-218-234-250 l á prjóninum). Haldið mynsturprjóninu áfram. Nú hefst úrtaka og er hún alltaf gerð í fyrstu umferð eftir perluprjón. Prjónið alltaf fyrstu 3 l sléttar, prjónið svo 2 l saman, *4-5-6-7 l sl, 2 l saman* endurtakið * * út umferðina. Í næstu úrtöku er einni lykkju færra á milli úrtaka, (*3-4-5-6 l sl 2 l saman* og endurtakið * *) þannig fækkar í hverri úrtöku um 1 l á milli úrtaka. Athugið að í stærð 3 eru tvær síðustu úrtökurnar með 4 l á milli og í stærð 4 eru 5 l á milli í síðustu 3 úrtökunum. Prjónið þar til alls eru komnir 4-5-6-7 perluprjónsbekkir á berustykkinu. Prjónið þá 2 umf með lit 1 skiptið yfir á prjón no 3,0, fækkið jafnt yfir umferðina þannig að 68-70-72-74 l eru á prjóninum og prjónið brugðning alls 4-6-6-8 umf. Fellið laust af.

Takið með prjón no 3,0 upp 62-71-78-88 l meðfram hægra framstykki fyrir drengi en vinstri fyrir stúlkur og prjónið brugðning 1 sl 1 br alls 6-7-7-8 umf, fellið laust af. Takið aftur sama fjölda á hinu framstykkinu en nú eru prjónuð hnappagöt eftir 2-3-3-4 umferðir, alls 7-8-8-9 sinnum, þannig að fyrst eru prjónaðar 3 l, svo 2 l saman, fitjaðar upp 2 l næsta l tekin óprjónuð og steypt yfir næstu l, prjónið 5-5-6-8 l og gerið aftur hnappagat, þannig eru alls 7-7-8-9 l á milli hnappagata. Nýju lykkjurnar eru prjónaðar sl og br eins og áður. Prjónið þar til alls eru komnar 6-7-7-8 umf, fellið laust af.

Lykkjið saman undir höndum, gangið frá endum, skolið úr mildu sápuvatni og leggið til þerris.

Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir

Nýjar fréttir