Heimsmeistarmótið í júdó fer fram í Búdapest í Ungverjalandi 28. ágúst til 3. september næstkomandi. Ísland sendir einn keppanda á mótið, Selfyssinginn Egil Blöndal Ásbjörnsson frá júdódeild Selfoss. Egill keppir í -90 kg flokki fimmtudaginn 31. ágúst.
Egill hefur æft mjög vel undanfarin ár, bæði innanlands og utan. Hann var við æfingar í Frakkandi, Tékklandi, Austurríki og Japan á síðasta ári og þessu ári m.a. í Austurríki og Spáni. Hafa þessar æfingar beint og óbeint verið undirbúningur að heimsmeistaramótinu og Tokyo Grand Slam í byrjun desember.
Keppnin í Ungverjaland verður í beinni útsendingu og má finna tengil á hana á heimasíðu Júdósambands Íslands dagana fyrir heimsmeistaramótið.
Þess má geta að veitt eru peningaverðlaun fyrir þrjú efstu sætin. Fyrir fyrsta sæti er verðlaunaféð rúmlega 11 milljónir íslenskra króna. Þannig að það er til mikils að vinna.
Egill hefur tekið þátt í mörgum mótum innanlands og utan undanfarin ár og unnið til fjölda verðlauna. Hann varð meðal annars tvöfaldur Íslandsmeistari árið 2017 í sínum þyngdarflokki og opnum flokki.