-5 C
Selfoss
Home Fréttir Töðugjöld og 90 ára afmæli Hellu

Töðugjöld og 90 ára afmæli Hellu

0
Töðugjöld og 90 ára afmæli Hellu
Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Nú eru liðin 90 ár frá því að Þorsteinn Björnsson hóf verslunarrekstur á skika sínum austan Ytri-Rangár sem hann nefndi Hellu. Staðsetningin var ekki tilviljun því Þorsteini stóðu til boða fleiri staðir til að stunda sín viðskipti – hann taldi staðinn einfaldlega svo fallegan að fáu væri saman við að jafna. Það er auðvelt að skilja staðarval Þorsteins því leitun er að fegurra bæjarstæði á Íslandi en einmitt þar sem Hella stendur á grösugum bökkum hinnar lygnu Rangár.

Hella hefur vaxið og dafnað, fyrst í kringum verslun Þorsteins og síðar Kaupfélagið Þór og í kjölfarið hefur sprottið fram margháttuð þjónusta og atvinnustarfsemi sem sífellt er í þróun og fjölbreytnin vex með ári hverju. Um sögu þorpsins verður hægt að fræðast í byggðasögu Hellu sem kemur út á næstunni – hlaðin myndum og margháttuðum heimildum. Með útgáfu byggðasögu Hellu má segja að mikilvægum áfanga verði náð því þá er lokið útgáfu byggðasögu fyrir allt sveitarfélagið Rangárþing ytra sem hófst fyrir 35 árum síðan er Rangvellingabók meistara Valgeirs á Þingskálum rann úr prentvélum Helluprents.

Töðugjöldin eru fyrst og síðast bæjarhátíð heimamanna og brottfluttra með heimþrá en auðvitað er öllum tekið opnum örmum sem heimsækja vilja okkur þessa hátíðardaga og njóta þess sem þorpið og héraðið  okkar hefur upp á að bjóða. Dagskrá Töðugjalda er með nokkuð hefðbundum hætti og eins og ævinlega gengið út frá mikilvægi þess að „Maður er manns gaman“ en að þessu sinni er einnig tækifærið gripið og þess minnst að Hella á 90 ára afmæli.

Velkomin á Hellu og gleðileg Töðugjöld

Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra