-7.2 C
Selfoss

„Breytingarnar miklar og alls konar, gleðilegar og minna gleðilegar, eins og til dæmis morgunógleðin“

Vinsælast

Sunnlenskt band, Sunnlenskar raddir, persónulegir textar og mis-dramatísk lög á útgáfutónleikum Fríðu Hansen á Sviðinu á föstudag

Fríðu Hansen þekkja margir Sunnlendingar en hún hefur verið áberandi í tónlistarlífinu síðustu ár. Hún er reiðkennari og tamningarkona að mennt og er með reiðskóla á sumrin á Leirubakka í Landsveit, þar sem hún býr og er uppalin. Hún er einnig tónlistarkona, söngkona og lagahöfundur, sem syngur við hin ýmsu tilefni, en hún byrjaði svo að gefa út tónlist í covid.

Fríða var ekki nema 10 ára þegar hún samdi fyrsta lagið sitt á orgelið frá afa sínum í stofunni heima, en þá var hún byrjuð í píanónámi. Fljótlega eftir það fór hún að læra söng og ákvað svo að vilja feta í fótspor systur sinnar Önnu Hansen, söngkennara og söngkonu sem syngur nú með hljómsveitinni Aqua úti í Danmörku og út reyndar út um allan heim!

Árið 2020 kom út hennar fyrsta lag, sem bar nafnið Tímamót. Það var svo tekið upp og spilað af Stefáni Þorleifssyni, en þau Stefán og Fríða höfðu unnið saman í langan tíma. Lagið sat á vinsældarlista Rásar 2 um tíma og var mikið spilað. Í kjölfar þess hófst samstarf við popparann Hreim Örn Heimisson og söng Fríða inn á lagið hans Lítið hús sem sat á vinsældarlistum t.d. á Bylgjunni. Síðar gáfu þau Fríða og Hreimur út lagið Drottning um stund, sem var lag Landsmóts Hestamanna árið 2022. Fríða gaf svo út plötu í fyrrasumar með 6 frumsömdum lögum.

Blaðamaður Dagskrárinnar náði tali af þessari fjölhæfu listakonu og lék forvitni á að vita hvernig samstarf hennar og Hreims hófst. „Ég hafði stundum fengið að taka lagið með Hreimi og þeim í hljómsveitinni Made in Sveitin þegar ég var að skemmta mér, enda þekki ég bassaleikarann vel, Róbert Dan Bergmundsson. Hann hafði stundum spilað undir hjá mér, bæði á tónleikum og í stigsprófum í tónlistarskólanum hjá Stebba (Stefáni Þorleifssyni). Svo þegar ég var farin að semja tónlist sjálf ákvað ég bara að prufa að hringja í Hreim, og fékk hann til að hlusta á það sem ég hafði verið að gera. Hann var alltaf jákvæður og hjálpsamur og endaði svo á að bjóða mér að syngja með sér lagið hans, Lítið hús. Það var mjög skemmtilegt og hann hefur kynnt mig fyrir fleirum frábærum listamönnum sem hafa unnið með mér að tónlistinni.“

Fríða Hansen. Ljósmynd: Aðsend.

Persónulegir textar og mis-dramatísk lög

Plata Fríðu, Vaxtaverkir, kom út í fyrrasumar. „Hún fjallar að mestu leyti um ferðalagið mitt þegar ég komst að því að ég ætti von á barni og þangað til sonur minn varð svona 1 árs. Það að verða ólétt varð eins og smá spark í rassinn til að elta draumana mína, sem eru m.a. þeir að vinna við það að gera og flytja tónlist. Mér finnst orðið vaxtarverkir lýsa best því ferli sem ég gekk í gegnum, enda breytingarnar miklar og alls konar, gleðilegar og minna gleðilegar, eins og til dæmis morgunógleðin, „segir Fríða og hlær. „Textarnir eru því persónulegir og lögin poppuð og mis-dramatísk. Ég er ofboðslega þakklát fyrir þetta tímabil og tækifærið að hafa getað gefið mér tíma í þetta verkefni.“ 

Fríða segir upptökuferlið langt frá því að vera eins manns verk. „Með mér var frábært fólk og þar ber fyrstan að nefna Vigni Snæ, oft kenndan við Írafár, en hann bæði tók plötuna upp, spilaði inn gítarana, bassann og stundum syntha, hann hljóðblandaði hana líka og útsetti með mér og samdi líka með mér lagið Líttu nú upp. Svo var Stefán Þorleifsson mikilvægur partur af plötunni, en hann samdi með mér lagið Hjartalag og spilaði inn píanóið í öllum lögunum. Benedikt Brynleifsson spilaði svo listavel á trommurnar og Samúel Jón Samúelsson spilaði á básúnu og Kjartan Hákonarson spilaði á trompet. Ekki má svo gleyma henni Hörpu Rún Kristjánsdóttur, ljóðskáldi með meiru frá Hólum á Rangárvöllum, sem samdi með mér textann að laginu Ég kem til þín. Sigurdór Guðmundsson, sunnlendingur sem er búsettur í Danmörku, hljómjafnaði svo plötuna og gerði hana tilbúna í vínylframleiðslu, en platan kom út á vínyl,“ segir Fríða.

Loks tími fyrir útgáfutónleika

Nú er Fríða í óðaönn við undirbúning útgáfutónleika sem verða haldnir föstudagskvöldið 1. mars á Sviðinu á Selfossi.„Prógrammið er flott og fjölbreytt, en ég fæ til liðs við mig kórinn Sunnlenskar Raddir, sem sjá m.a. um bakraddir. Ég kalla þetta útgáfutónleika því ég gaf mér ekki tíma til að halda slíka í sumar eftir að platan kom út, en nú er sko heldur betur kominn tími til. Ég tala um að dagskráin verði fjölbreytt, því að auk kórsins verður líka með mér hann Hreimur, en hann kemur og við ætlum að flytja lögin okkar saman og hann ætlar að taka nokkur lög sjálfur líka. En svo kemur Anna systir heim og ætlar að syngja að minnsta kosti eitt lag eftir sjálfa sig og að minnsta kosti eitt með mér! Það fer eftir því hvað ég næ að snúa mikið upp á hendina á henni,“ segir Fríða kát. „Svo ætla ég að frumflytja nýja tónlist á tónleikunum – þar á meðal lag sem mun vonandi koma út í flutningi Sunnlenskra Radda þegar líður á vorið.“

Eingöngu sunnlenskir flytjendur

Ásamt Fríðu verður hljómsveit skipuð eingöngu Sunnlendingum. „Stefán Þorleifsson verður á píanó, Árni Þór Guðjónsson á bassa og stundum á gítar, Alexander Freyr Olgeirsson á gítar og Óskar Þormarsson spilar á trommurnar,” segir Fríða.

Vonir standa svo til að ný plata komi út á árinu. „En kannski snemma á því næsta. Ég hlaut styrk frá Hljóðritasjóði og Upptökusjóði Stefs í fyrravor, en svona plata er lengi í vinnslu. Ég stefni að því að gefa út nokkra „singla“ á þessu ári en hver veit!“

Fríða segist vera virk á Instagram, fridaahansen, ásamt því að halda úti heimasíðu, fridamusic.myshopify.com, þar sem bæði er hægt að kaupa plötuna hennar og bolla sem hún fór að gera samhliða útgáfu plötunnar en bollarnir eru handskreyttir með tilvitnunum í texta plötunnar.

Að lokum segist Fríða lofa góðri skemmtun á Sviðinu þann 1. mars næstkomandi og hvetur fólk til að vera í fyrra fallinu að ná sér í miða á svidid.is.

Nýjar fréttir