-6.9 C
Selfoss

Selfyssingar upp í úrvalsdeild

Vinsælast

Kvennalið Selfoss í handknattleik tryggði sér pláss í úrvalsdeild kvenna á sunnudag eftir stórsigur á unglingaliði Vals, 40:26.

Perla Ruth Albertsdóttir gerði sér lítið fyrir og skoraði 14 mörk í leiknum, Katla María Magnúsdóttir skoraði tíu og Anna Kristín Einarsdóttir níu.

Selfoss hefur sýnt mikla yfirburði í næstefstu deild, en þær hafa unnið alla sína 15 leiki í deildinni. Auk þess á Selfoss þrjá af þeim 19 leikmönnum sem þjálfarateymi A landsliðs kvenna valdi til að taka þátt í leikjum Íslands gegn Svíþjóð í undankeppni EM 2024, þær Kötlu Maríu, Perlu Ruth og Tinnu Sigurrós Traustadóttur.

„Árangur liðsins hingað til hefur verið frábær. Hópurinn tók ákvörðun um að standa saman síðasta sumar og setti sér háleit markmið. Það er svo eitt að tala um hlutina og annað að framkvæma þá eins og þær hafa svo sannanlega gert,“ segir Eyþór Lárusson, þjálfari liðsins í samtali við Dagskrána.

Mætum á pallana og styðjum stelpurnar okkar

Eyþór bætir við að tímabilið sé þó ekki búið þó sæti í deildinni sé í höfn. „Framundan eru þrír leikir í deild og svo bikarúrslitahelgin í byrjun mars. Þar ætlum við okkur stóra hluti og hvetjum við alla Selfyssinga að mæta á pallana og styðja liðið.“

Nýjar fréttir