…segir lestrarhesturinn Katrín Þrastardóttir
Katrín Þrastardóttir er uppalin Selfyssingur og býr þar ásamt eiginmanni sínum Ómari Þór blikksmið og dætrum þeirra Maríu Þórs og Matthildi Þórs. Katrín er teymisstjóri ART teymisins á Suðurlandi en það er úrræði fyrir fjölskyldur barna með hegðunar- og/eða tilfinningavanda. Helstu áhugamál hennar eru hreyfing, útivist, ferðalög innanlands sem utan, stangveiði, núvitund, samvera og lestur góðra (og lélegra) bóka.
Hvaða bækur ertu að lesa núna?
Á náttborðinu liggur Saga þernunnar eftir Margaret Atwood. Hana fékk ég í jólagjöf frá Rebekku Kristinsdóttur vinkonu minni og var ég strax spennt að lesa hana þrátt fyrir að hafa séð fyrstu þættina af The Handmaid´s Tail sem eru gerðir eftir sögunni. Bókin segir söguna með öðrum og mjög svo grípandi hætti. Í bílnum og við heimilisstörfin er ég svo að hlusta á Brúður Krists: Alin upp í sértrúarsöfnuði eftir Linnéa Kuling sem varð fyrir valinu því ég er ansi forvitin um hugsanagang þeirra sem lifa og hrærast í sértrúarsöfnuðum. Að auki er ég í mastersnámi í fjölskyldumeðferð og er ég því líka með opnar bækurnar Family Therapy and the Treatment of Substance Use Disorders og Attachment Theory in Practice.
Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Það er ansi fjölbreytt. Ég hef gaman af góðum reifara og get líka gleymt mér í væminni ástarsögu. Nýlega hef ég fengið áhuga á ævisögum einstaklinga sem hafa gengið í gegnum erfiðleika eða ævisögur sem fjalla um lífið á Íslandi á árum áður. Þá dettur mér í hug bækur eins og Konan í dalnum og dæturnar sjö eftir Guðmund G. Hagalín, Vertu úlfur: wargus esto eftir Héðinn Unnsteinsson, Á vori lífsins – minningar eftir Guðfinnu Ragnarsdóttur og Afdalabarn eftir Guðrúnu frá Lundi. Ég get jafnframt haft gaman af lélegum bókmenntum og finnst mikilvægt að þær séu ekki gjaldfelldar of hratt. Að gleyma sér yfir einfaldri sögu og að geta séð fegurðina í henni getur verið ansi notalegt í amstri dagsins og nýti ég mér það oft. Gott dæmi um þetta er bókaflokkurinn um Ísfólkið eftir Margit Sandemo sem telja 47 bækur sem ég hef lesið allar oftar en einu sinni.
Fékkstu lestraruppeldi í æsku?
Foreldrar mínir eru báðir miklir lestrarhestar. Ég var því svo heppinn að það var mikið lesið fyrir mig þegar ég var að alast upp og var ég ung farin að lesa mér til skemmtunar. Bækurnar eftir Astrid Lindgren standa upp úr í minningunni og höfðum við mamma einstaklega gaman að henni Lottu sem gat allt eða að minnsta kosti næstum allt. Smálöndin í Svíþjóð fannst mér hljóma sem ævintýraheimur og langaði mikið til að búa þar. Þegar ég var orðin aðeins eldri kynntist ég svo lélegri bókmenntum eins og bókunum um Bert eftir Sören Olsen og Anders Jacobsson og hámaði þær í mig. Ég var því snemma komin með bragð fyrir lélegum bókum.
Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?
Mér finnst afskaplega notalegt að leggjast snemma upp í rúm með góða bók og jafnvel sofna út frá henni. Kvöldlesturinn kemur í skorpum og er oftast bundinn við að ég hafi fengið góða bók að láni eða í gjöf. Ég hlusta líka mikið á bækur á Storytel. Ég keyri mikið í minni vinnu og hlusta þá gjarnan í bílnum. Eins hlusta ég alltaf þegar ég brýt saman þvott og ryksuga og skúra en góð bók gerir heimilisstörfin talsvert léttari og heldur manni alveg við efnið. Síðast en ekki síst þá þykir mér afskaplega notalegt að hlusta á góða bók á meðan ég prjóna.
Áttu þér einhverja uppáhaldshöfunda eða verk?
Stutta svarið er nei. Ég á mér ekki uppáhalds höfunda heldur mikið frekar uppáhalds umfjöllunarefni. Ég les mikið skáldsögur og á það til að fá leið á skáldsagnahöfundum því oft verða efnistökin ansi svipuð og maður fer að sjá söguna og endinn fyrir. Þegar kemur að sjálfsævisögum eru höfuyndar gjarnan ,,one hit wonder“ því við lifum jú víst bara einu sinni svo þeir ná ekki heldur titlinum uppáhalds höfundur. Ef ég yrði að velja einhvern uppáhalds myndi ég sennilega hverfa aftur til fortíðar og velja Astrid Lindgren en ég les enn mikið bækurnar hennar og núna fyrir dætur mínar.
Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?
Já margoft! Það er eitthvað svo dásamlegt við að lesa það góða bók að þú getur ekki hugsað þér að loka henni. Þig langar helst að hella upp á kaffi og smyrja ristað brauð með osti og gúrku til að geta haldið áfram með söguna frekar en að slökkva ljósin og fara að sofa. Síðustu bækur sem héldu mér vakandi voru A Nearly Normal Family eftir M.T. Edvardsson og Verity eftir Colleen Hoover.
En að lokum Katrín, hvernig bækur myndir þú skrifa sjálf?
Ef ég væri rithöfundur myndi ég skrifa barnabækur. Hver veit nema það gerist.